Tilbúnir í átök ef til þarf

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Niðurstaða atkvæðagreiðslu félaga iðnaðarmanna um verkfallsboðun er skýr og sýnir að félagsmenn þeirra eru tilbúnir í átök ef þau þarf til, að sögn Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, formanns Rafiðnaðarsambands Íslands. Félögin eiga fund með Samtökum atvinnulífsins í fyrramálið.

Atkvæðagreiðslu félagsmanna í sex félögum iðnaðarmanna um heimild til boðunar tímabundins verkfalls 10.-16. júní og ótímabundins verkfalls frá 24. ágúst lauk í morgun. Niðurstaðan varð sú að 75,1% samþykktu verkfall. Félögin eru VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna, Samiðn, Matvís, Rafiðnaðarsamband Íslands, Grafía - stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum og Félag hársnyrtisveina.

„Mér náttúrulega líst svo sem ekkert mjög vel á stöðuna þannig séð en niðurstaðan er mjög skýr, bæði hjá Rafiðnaðarsambandinu sem og öðrum iðnaðarmannafélögum. Okkar félagsmenn eru greinilega á því að fara í átök ef að það þarf til að ná samningum. Að sjálfsögðu verðum við að reyna að ná samningum áður en til þessa kemur,“ segir Kristján Þórður.

Það muni koma í ljós á morgun þegar félögin funda með SA hvort eitthvað hafi rofað til. Kristján Þórður segir að ekki hafi örlað á miklum vilja til að ræða við fulltrúa félaganna fram að þessu.

„Við vonumst til að þeir fari að gefa sér tíma til að ræða við okkur og koma til móts við okkar kröfur, að sjálfsögðu,“ segir hann.

Þeir kjarasamningar sem undirritaðir voru á föstudag koma ekki til móts við kröfur iðnaðarmanna, að sögn Kristjáns Þórðar. SA séu meðal annars ekki reiðubúin til að draga úr yfirvinnutímum og hækka dagvinnulaun á móti og þær almennu hækkanir sem kveðið sé á um séu ekki nægilegar.

„Taxtar okkar þurfa að hækka verulega og við höfum viljað hækka taxtana upp að raunverulega greiddum launum en þeir hafa dregist svolítið aftur úr á undanförnum árum. Á því viljum við bara taka á. Það er ekki verið að horfa til okkar hóps í þeim efnum í þessum kjarasamningi,“ segir Kristján Þórður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert