„Tvennar sögur fara af lyktinni“

Arnar afgreiðir viðskiptavin sem af myndinni að dæma vill rétt …
Arnar afgreiðir viðskiptavin sem af myndinni að dæma vill rétt úr fiskréttaborðinu. Mynd/Fiskbúðin Sundlaugavegi 12

„Það er helst eldri kynslóðin sem hefur eignað sér þennan markað hjá okkur. Þau eru alveg sólgin í þetta,“ segir Arnar Þór Elísson hjá Fiskbúðinni á Sundlaugavegi um signu grásleppuna sem kemur í fiskbúðina í dag.

„Það er kannski við hæfi að hún komi á þessum góðviðrisdegi,“ segir Arnar enda er oft litið á komu signu grásleppunnar sem tákn um að sumarið sé komið.

Hann segir að þótt eldra fólkið sæki mikið í fiskinn, sé gleðilegt að sjá ungt fólk prófa þennan sérstaka rétt. „Það er gaman að sjá þegar unga kynslóðin tekur sig til og prófar þetta. Það hefur kannski alist upp við þetta hjá ömmu og afa og vill sjálft prófa þetta. Þannig haldast vinsældirnar ár frá ári og það kemur nýtt fólk inn á þennan markað.“

Hin signa grásleppa er fáanleg tímabundið á sumri hverju. Arnar segir að verslunin hafi ekki verið með réttinn á boðstólnum í fyrra. „Við reynum að kaupa talsvert magn af þessu og geyma fryst. Eldra fólkið hamstrar þetta þannig að þetta endist ekki mjög lengi. Við vorum síðan ekki með þetta í fyrra þegar þetta hækkaði í verði.“

Eldra fólkið vanafastara

Hann segir tvennar sögur fara af lyktinni. „Þeim sem finnst þetta gott, elska hreinlega lyktina. Síðan eru sumir sem segjast kaupa þetta og ætla að elda, en makinn rekur þá út á svalir til þess að elda fiskinn, vegna lyktarinnar.“ Arnar segir að algengast sé að fólk eldi grásleppuna og snæði með tólg. 

Fiskbúðin er annars vegar með fiskborð þar sem boðið er upp á ferskan fisk úr sjónum og hins vegar réttaborð þar sem boðið er upp á alls kyns fiskrétti sem þróaðir hafa verið undanfarin ár, líkt og marineraðan fisk, grillspjót, sósufisk og vefjur. Ýsan er alltaf það vinsælasta í ferska borðinu. „Eldra fólkið borðar meira af ferska fisknum. Sumir veigra sér við því að smakka fiskréttina en þeir sem láta glepjast brjótast úr skelinni enda mjög bragðgott. Unga kynslóðin er meira í fiskréttunum en fer þó líka í ferska borðið. Síðan inn á mill fær það sér fínar steikur eins og stórlúðu, lax og silung,“ segir Arnar. 

Grásleppa.
Grásleppa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert