Stór hluti geislafræðinga sagt upp

21 geislafræðingur hefur sagt upp.
21 geislafræðingur hefur sagt upp. mbl.is/ÞÖK

Rúmlega tuttugu geislafræðingar á Landspítalanum hafa sagt upp störfum sínum, eða um þrjátíu prósent allra þeirra geislafræðinga sem starfa á spítalanum. Þetta staðfesti Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Landspítalans í samtali við mbl.is.

Uppsagnirnar hafa borist frá því fyrir helgi, en uppsagnafresturinn er þrír mánuðir og koma þær því til framkvæmda 1. september. Sextíu og fjögur stöðugildi geislafræðinga eru við spítalann en starfsmenn eru 77 og er því um stóran hluta að ræða.

Lamandi að missa svo stóran hóp

„Það er auðvitað alveg afleitt að þetta gangi svona langt. Það yrði algjörlega lamandi að missa svona stóran hóp úr starfseminni,“ segir Óskar en bætir við að starfsfólkið sé orðið þreytt vegna aukins vinnuálags sem hefur orðið í kjölfar verkfalls geislafræðinga.

„Fólkið er uppgefið á þessum málum en spítalinn gengur mjög illa án rannsókna. Rannsóknir eru í raun hjartað í öllum lækningum og nánast allir sem fara inn á spítala eru rannsakaðir. Þetta er algjörlega ómissandi hlekkur í keðjunni sem öllum þykir mjög mikilvægur og það sýnir mikilvægi þessara starfa,“ segir hann.

Gríðarlegt álag á hvern og einn

Verkfallið hefur staðið yfir í tæpar níu vikur og hafa geislafræðingar unnið eftir undanþágulistum á þeim tíma. Að sögn Óskars hefur verið gríðarlegt álag á hvern og einn starfsmann sem unnið hefur í verkfallinu og afar erfitt sé fyrir þá að vinna við þessar aðstæður. Afköstin hafi þó verið mikil hjá hverjum og einum.

Óskar segir undanþágulistana miðast við stutt verkföll, og því verði mikil röskun á starfseminni þegar um langt verkfall eins og þetta sé að ræða. „Starfsfólkið er með mikið veikt fólk sem það getur ekki almennilega sinnt og þá kemur samviskan upp hjá fólki. Þau hafa lært og lagt mikið á sig til að gera vel en svo gefst ekki færi á því að gera vel og þá skapast vanlíðan og fólk fer að hugsa sér til hreyfings og vill gera eitthvað annað,“ segir hann.

Hefði frekar þurft að fjölga um 20

Aðspurður um afleiðingar þess ef uppsagnirnar koma til framkvæmda segir Óskar að erfitt sé að gera sér það í hugarlund. „Ég ætla rétt að vona að þetta muni ekki gerast. Ég vona að þessi deila verði leyst og geislafræðingunum þyki samningurinn aðlaðandi og komi til baka. Þetta er okkur allt alveg ómetanlegt fólk,“ segir hann og bætir við að starfsemi sviðsins muni ekki ganga upp án 20 geislafræðinga. „Við hefðum frekar þurft að fjölga um tuttugu en fækka um tuttugu.“

Hann segist óttast að ef það drag­ist að semja við geislafræðinga þá fari þeir sem hafa sagt upp störf­um að kanna mögu­leika og líta í kring­um sig eft­ir nýj­um störf­um. Því sé gríðarlega mikilvægt að samið verði sem fyrst og geislafræðingarnir dragi uppsagnirnar til baka. „Fólk er jafn veikt og þarf jafn mikið á þjónustunni að halda þó þetta verkfall sé í gangi.“

Óskar Reykdalsson framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Landspítalans.
Óskar Reykdalsson framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi
Verkfall geislafræðinga hefur staðið yfir í tæpar 9 vikur.
Verkfall geislafræðinga hefur staðið yfir í tæpar 9 vikur. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert