Andlát: Vala Ingimarsdóttir framkvæmdastjóri

Vala Ingimarsdóttir
Vala Ingimarsdóttir

Vala Ingimarsdóttir, stjórnmálafræðingur og framkvæmdastjóri, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi aðfaranótt mánudagsins 1. júní sl., 41 árs að aldri.

Vala fæddist í Reykjavík 28. janúar 1974 og ólst þar upp við Flókagötuna. Foreldrar hennar eru Ingimar Jóhannsson, fyrrverandi skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, og Lillý Valgerður Oddsdóttir ritari.

Vala lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1994, lærði þýsku í Hamborg, stundaði síðan nám í stjórnmálafræði og viðskiptafræði við Háskóla Íslands og við University of North Texas og lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 1999.

Vala var sölustjóri hjá Alþjóðalíftryggingafélaginu 1999-2001 og starfaði síðan hjá Kaupþingi með hléum til 2006.

Árið 2007 stofnuðu þau Vala, Garðar Guðmundsson, heila- og taugaskurðlæknir, Finnbogi Rútur Þormóðsson, doktor í taugalíffræði, og ýmsir fjárfestar fyrirtækið ValaMed en hún var framkvæmdastjóri fyrirtækisins á árunum 2009-2012. Fyrirtækið er rannsóknarfyrirtæki sem miðar að hnitmiðaðri lyfjameðferð við krabbameini með því að gera lyfjanæmispróf á krabbameinsfrumum viðkomandi sjúklinga fyrir meðferð.

Vala gegndi ýmsum trúnaðarstöðum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún var varaformaður miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins 2012-2013. Hún var formaður Hverfisráðs Vesturbæjar hjá Reykjavíkurborg 2007-2010 sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og sat í ráðinu 2013-2014. Hún sat í stjórn Heimdallar 1994-96, var varaformaður Hverfafélags sjálfstæðismanna í Háaleiti 2002-2004 og síðar varaformaður Hverfafélags sjálfstæðismanna í Nes- og Melahverfi auk þess sem hún hefur setið í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í áraraðir.

Eiginmaður Völu er Bjarni Þórður Bjarnason, verkfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Arctica Finance.

Börn Völu og Bjarna Þórðar eru Bryndís Líf, f. 31.10. 2002, og Ingimar Stefán, f. 27.9. 2007.

Vala Ingimarsdóttir
Vala Ingimarsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert