Grunur um byssumann í Kópavogi

Sérsveitin hefur nú girt af götur í kringum Hlíðarhjalla í Kópavogi þar sem grunur leikur á um að maður sé í íbúð í blokk, vopnaður haglabyssu. Lögreglan telur einnig að hann hafi hleypt af skoti inni í íbúðinni.

Frétt mbl.is kl. 21.27: Íbúðin reyndist mannlaus

Búið er að einangra íbúðina og reynt er að ná sambandi við manninn að sögn lögreglu. Sérsveitin stjórnar aðgerðum en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sér um vettvangsstjórnun og aðstoð við sérsveitina.

Uppfært kl. 17.21:

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hefur verið lögð áhersla á að tryggja öryggi almennings á svæðinu. Það hafi verið forgangsmál og telur lögreglan að því verkefni sé nú lokið. Síðan taki það þann tíma sem þurfi að takast á við ástandið. Tilraunir til þess að ná sambandi við manninn hafi til þessa ekki borið árangur.

Uppfært kl. 18.42:

Samkvæmt fréttum RÚV bárust lögreglu þrjár tilkynningar um skothvelli í hverfinu rétt fyrir kl. 15 í dag. Sérsveitin var kölluð til og nærliggjandi götum lokað. Að sögn yfirlögregluþjóns hefur húsnæðið ekki verið rýmt og sagði hann í samtali við RÚV að íbúar væru öruggastir þar sem þeir væru.

Uppfært kl. 20.13:

Að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns voru þrír íbúar fluttir úr stigaganginum fyrir um 20 mínútum, þegar aðstæður til þess voru taldar öruggar. Viðkomandi voru einu íbúar stigagangsins sem enn dvöldu í íbúðum sínum, utan byssumannsins.

Ekki hefur tekist að ná sambandi við byssumanninn, að sögn Ásgeirs.

Uppfært kl. 21.18:

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur staðfest að tveir sjúkrabílar sem sendir voru á vettvang í dag hafi verið kallaðir til baka. Kynningarfulltrúi lögreglunnar sagði þó í samtali við mbl.is fyrir skömmu að aðgerðum væri ekki lokið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert