Ófærð og hálka

Það er byrjað að slá í Reykjavík en ekki viðrar …
Það er byrjað að slá í Reykjavík en ekki viðrar jafn vel á landinu öllu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þrátt fyrir að dagatalið segi að það sé sumar virðast veðurguðirnir ekki vera sammála því enn berast tilkynningar um ófærð og hálku á vegum landsins.

Það er að mestu greiðfært á Suður-, Vestur- og Norðurlandi. Á Vestfjörðum er ófært á Dynjandisheiði en snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.

Á Norðaustur- og Austurlandi er hálka á Fljótsheiði, Mývatnsöræfum og Fjarðarheiði en þar er einnig skafrenningur. Snjóþekja er á Hófaskarði, Hálsum, Brekknaheiði og Vatnsskarði eystra. Hálkublettir eru í Öxarfirði, Sandvíkurheiði, á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði, á Fagradal, í Oddsskarði og á Öxi.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Norðlæg átt 8-15 m/s. Slydda eða snjókoma norðan- og austantil, en rigning eða slydda upp úr hádegi. Skýjað með köflum eða bjartviðri sunnan- og suðvestanlands. Dregur úr vindi og úrkomu seint í nótt og á morgun. Norðaustan 5-10 síðdegis. Úrkomulítið norðan- og austanlands síðdegis, skúrir sunnantil, en yfirleitt þurrt vestanlands. Hiti 0 til 6 stig norðantil, en 6 til 13 stig sunnantil að deginum.

Á miðvikudag:
Norðlæg átt 5-13 m/s. Rigning norðantil á landinu og sums staðar slydda til landsins, en úrkomulítið síðdegis. Hægari austlæg átt og skýjað með köflum sunnantil og stöku síðdegisskúrir. Hiti 1 til 6 stig norðantil, en allt að 12 stig sunnantil.

Á fimmtudag og föstudag:
Fremur hæg austan- og norðaustanátt. Skýjað með köflum og sums staðar dálitlar skúrir. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast á SV-landi.

Á laugardag:
Norðan og norðaustan 8-15 m/s. Rigning suðaustan- og austanlands, en annars þurrt að mestu. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:
Ákveðin norðan- og norðvestanátt. Rigning norðan- og austanlands, en annars skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 4 til 12 stig, hlýjast sunnanlands.

Á mánudag:
Útlit fyrir vestlæga átt. Skýjað og úrkomulítið vestanlands, en bjart fyrir austan. Hlýnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert