„Gróf aðför að réttindum launafólks“

Jónas Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannafélags Íslands.
Jónas Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannafélags Íslands. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Það er skýlaust brot gegn vinnulöggjöfinni að ætla að semja við þriðja aðila um kaup og kjör fólks á tímabundinni ráðningu. Gjörningurinn er fordæmalaus í samskiptum samtaka launaþega og atvinnurekenda á síðari tímum, gróf aðför að réttindum launafólks og brýtur gegn landslögum um lágmarkslaun.“

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sjómannafélagi Íslands. Þar segir að þann 1. apríl hafi tekið gildi samningur félagsins við Sæferðir, útgerð bílaferjunnar Baldurs á Breiðafirði, um kjör umbjóðenda SÍ við útgerðina. Þann 28. maí hafi hins vegar borist fregnir um að Sæferðir hefðu gert kjarasamning við Verkalýðsfélag Snæfellinga fyrir sumarafleysingafólk um umtalsvert lægri laun en samningur SÍ kveði á um.

„Fara þarf aftur til árdaga íslenskrar verkalýðshreyfingar til þess að finna  sambærilega ósvífni atvinnurekenda. Kjarasamningur SÍ og Sæferða kveður á um lágmarkslaun sem óheimilt er að lækka enda hrein og klár lögleysa. SÍ krefst þess að gildandi kjarasamningur félagsins við Sæferðir gildi fyrir fólk sem sinnir sams konar störfum og umbjóðendur félagsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert