Hefur áhrif á hundruð fyrirtækja

Ríkið innheimtir og skilar daglega til sveitarfélaganna sínum hluta, en …
Ríkið innheimtir og skilar daglega til sveitarfélaganna sínum hluta, en þessar greiðslur munu stöðvast í verkfallinu. mbl.is/Golli

„Ef þetta heldur lengi áfram geta skapast mikil vandamál,“ segir Barði Erling Barðason, sérfræðingur á tekjusviði Fjársýslu ríkisins, um verkfall sem hófst hjá stofnuninni á miðnætti. Um helmingur starfsmanna lagði niður störf, en verkfallið er ótímabundið og hluti af aðgerðum BHM.

Gerir hundruðum erfitt fyrir

Barði segir verkfallsaðgerðirnar fyrst og fremst hægja á allri starfseminni, og gera hundruðum fyrirtækja og einstaklinga erfitt fyrir. Hann segir stóra málið þó varða skil á staðgreiðslu til sveitarfélaganna. Ríkið innheimtir og skilar daglega til sveitarfélaganna sínum hluta, en þessar greiðslur munu stöðvast í verkfallinu. „Áhrif frá þessu byrja að koma fram á morgun en svo koma stóru tölurnar þarna inn um miðjan mánuðinn,“ útskýrir Barði.

Þá eru ekki send­ir út greiðslu­seðlar vegna ým­issa gjalda sem sýslu­menn og toll­stjór­inn í Reykja­vík ann­ast inn­heimtu á meðan á verk­fallinu stend­ur, meðal ann­ars tekju­skatt­ur, eigna­skatt­ur, sveit­ar­sjóðsgjöld, þunga­skatt­ur, skipu­lags­gjald og skatt­sekt­ir. Auk þess birtast ekki nýjar kröfur í netbönkum. 

Munu skulda virðisaukaskatt

„Svo verða allar þær greiðslur sem stoppa á villu ekki leiðréttar,“ bætir Barði við og segir þetta munu koma fram á föstudag þegar virðisaukaskattur er greiddur. „Þá eru alltaf nokkur hundruð fyrirtæki sem greiða rangt inn á bankareikning hjá okkur og við handleiðréttum það venjulega. Þetta verður ekki gert núna svo þessi fyrirtæki munu skulda vaskinn þangað til við komum aftur.“

Þetta muni gera það að verkum að hundruð fyrirtækja muni skulda virðisaukaskatt þrátt fyrir að hafa í raun greitt hann. Það geti haft slæmar afleiðingar fyrir þessi fyrirtæki, sem megi ekki vera í skuld við ríkissjóð til að geta til að mynda flutt inn vörur o.s.frv.

Getur stöðvað skattauppgjör

Þá er yfirvofandi álagning á þungaskatti sem fer ekki út að öllu óbreyttu. Í framhaldi geti verkfallið haft áhrif á bifreiðagjöld, en þau koma til greiðslu um miðjan júlí. Jafnframt geti verkfallið haft áhrif á skattauppgjör einstaklinga, dragist það á langinn. 

„Vinna við niðurstöður úr framtalinu, þ.e. álagningavinna einstaklinga, byrjar um miðjan júní og fer strax þá í uppnám ef verkfallið stendur ennþá. Þá verður ekki hægt að vinna þetta eins og venjulega, en sú vinna fer að mestu leyti fram í byrjun júlí. Ef þetta dregst á langinn mun ekki nást að klára þessa útborgun til einstaklinga,“ segir Barði.

Níu af tíu á tekjusviði í verkfalli

Á tekjusviði stofnunarinnar, sem sér um flest þessara verkefna, eru níu af tíu starfsmönnum í verkfalli. Þar starfar enginn á undanþágu, en að sögn Barða verður að öllum líkindum send inn undanþágubeiðni í von um að starfsemin stöðvist ekki alfarið á sviðinu.

Barði segir að eftir síðustu verkfallslotu, sem stóð yfir frá 20. apríl til 8. maí sl., hafi það tekið tvær vikur að koma vinnu við útsvarsgreiðslur til sveitarfélaganna í réttar horfur. Þá hafi tekið langan tíma fyrir þá félagsmenn BHM innan stofnunarinnar sem lögðu niður störf að vinna úr verkefnum sem söfnuðust upp í verkfallinu.

Á tekjusviði Fjársýslunnar eru níu af tíu starfsmönnum í verkfalli.
Á tekjusviði Fjársýslunnar eru níu af tíu starfsmönnum í verkfalli. mbl.is/Ernir
Áhrif verkfalla geta orðið víðtæk.
Áhrif verkfalla geta orðið víðtæk. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert