Lánin lutu allt öðrum lögmálum

Frá aðalmeðferð í SPRON-málinu.
Frá aðalmeðferð í SPRON-málinu. mbl.is/Styrmir Kári

Páll Árnason, fyrrverandi regluvörður og yfirmaður áhættustýringar SPRON, sagði við aðalmeðferð í SPRON-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að í flestum tilvikum væri ekki hægt að taka tryggingar vegna svokallaðra peningamarkaðslána. Tryggingin væri í raun efnahagsreikningur félagsins sem tæki lánið í hvert sinn - eigið fé þess.

Páll sagði það tvímælalaust hafa átt við Exista, en eins og kunnugt er veitti SPRON félaginu tveggja milljarða króna peningamarkaðslán 30. september 2008. „Tryggingin var í rauninni þessi góða staða fyrirtækisins. Ég held að flestir þekki hversu góð hún var,“ sagði hann fyrir dómi í dag.

Fram hefur komið í máli fjölmargra vitna, þar á meðal fyrrum starfsmanna fjárstýringar hjá bæði Exista og SPRON, að ekki hefði tíðkast að taka sérstakar tryggingar vegna peningamarkaðslána. Enda hefðu þau að jafnaði verið veitt til skamms tíma og til stórra fyrirtækja, þeirra stærstu á landinu, með traustan efnahag. Peningamarkaðslán lytu í raun allt öðrum lögmálum en hefðbundin útlán.

„Almennt voru peningamarkaðslán ótryggð,“ sagði Stefán Þór Sigtryggsson, fyrrverandi starfsmaður í fjárstýringu SPRON, fyrir dómi í dag. Hann sagðist ekki muna til þess að hafa sett tryggingar fyrir slíkum lánum. Það væri fyrst og fremst fjárhagsleg staða „mótaðilans“ sem skipti máli

Páll sagði að lánanefnd SPRON hefði ekki tekið þessa tilteknu lánveitingu, sem um ræðir í málinu, til umfjöllunar, ekki frekar en önnur peningamarkaðslán. „Lánin voru fyrst og fremst ákveðin í gegnum síma og í tölvupóstsamskiptum á milli starfsmanna. Þetta var yfirleitt eitthvað sem þurfti að gerast mjög fljótt og það var í raun ekki tími til að taka veð í einhverju,“ sagði Páll.

Útlánareglurnar eigi ekki við

Það má segja að óformlegur markaður hafi orðið til fyrir peningamarkaðslán en stórir og fjársterkir aðilar, svo sem lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og nokkur af stærstu fyrirtækjum landsins, þar á meðal Exista, áttu þar í skammtímaviðskiptum. Fyrirtækin gátu þannig stýrt lausafjárstöðu sinni með inn- eða útlánum til skamms tíma. Þessir lánasamningar voru jafnan ótímabundnir og gerðir með skömmum fyrirvara, eins og áður sagði.

Verjendur ákærðu hafa meðal annars haldið því fram að útlánareglur SPRON, sem sérstakur saksóknari telur að hafi verið brotnar, miðist aðeins við útlán til viðskiptavina, en að þar sé hvergi að finna skírskotanir til peningamarkaðslána.

Þannig segir í greinargerð Rannveigar Rist í málinu að einstök ákvæði útlánareglnanna, sem til að mynda lýsa ákvarðanatöku við lánveitingar, heimildum starfsmanna, skipulagi og verkaskiptingu í útlánaferlinu, skjalagerð, skráningu í kerfi og eftirliti með útlánum, verði illa eða alls ekki heimfærð á lánveitingar á peningamarkaði. 

Lánveitingar og lántökur SPRON á peningamarkaði hafi miðað að því að stýra lausafjárstöðu sparisjóðsins. Slíkar ráðstafanir hafi verið á sviði fjárstýringar en töldust ekki til eiginlegrar útlánastarfsemi. Þess vegna hafi ákvarðanir um peningamarkaðslán verið almennt teknar hjá fjárstýringu en ekki af forstjóra eða innan lánanefnda.

SPRON.
SPRON. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert