Litlar breytingar á milli ára í rekstri Árvakurs

Höfuðstöðvar Árvakurs í Hádegismóum.
Höfuðstöðvar Árvakurs í Hádegismóum. mbl.is/Golli

Heildartekjur samstæðu Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og mbl.is, námu 3,2 milljörðum króna í fyrra og drógust saman um 0,8% á milli ára. Rekstrargjöld námu 3,1 milljarði króna og jukust um 1,1%.

Rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 103 milljónum króna og dróst saman um 60 milljónir króna. Tap ársins eftir fjármagnsliði og skatta nam 42 milljónum króna, en árið áður var 6 milljóna króna hagnaður af rekstrinum. Stærstur hluti þessarar breytingar í afkomu á milli ára stafar af einskiptiskostnaði sem gjaldfærður var í fyrra vegna starfsloka.

Eignir Árvakurs jukust lítillega og námu 2,1 milljarði króna um áramót. Langtímaskuldir við lánastofnanir minnkuðu um rúmar 80 milljónir króna, meðal annars vegna sérstakrar innborgunar á skuldabréf, og námu 546 milljónum króna um áramót. Eiginfjárhlutfall styrktist lítillega á milli ára og var 48% um áramót. Handbært fé frá rekstri nam 128 milljónum króna og jókst um 68 milljónir króna á milli ára, að því er fram kemur í umfjöllun um afkomu Árvakurs í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert