Maí sá kaldasti í 33 ár

Svo kalt var á hálendinu og fyrir norðan að lóan …
Svo kalt var á hálendinu og fyrir norðan að lóan veigraði sér við því að fara þangað eftir að hún kom til landsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mjög kalt var á landinu í maí. Tíðarfar var óhagstætt og gróður tók lítt við sér. Mun kaldara var þó í maí 1979 og víða á landinu var ámóta kalt í maí 1982 og nú. Kuldinn var að tiltölu mestur á hálendinu, en þar var hiti allvíða -3 til -4 stig undir meðallagi síðustu tíu ára, en mildast var á Austfjörðum þar sem hiti var um -1,1 til -1,5 undir sama meðaltali.

Skánaði er leið á mánuðinn

Fyrstu tvær vikurnar voru sérlega kaldar og tíð þá erfið en síðari hluta mánaðarins var tíðin skárri og heldur hlýrra var í veðri lengst af.

Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík mældist +4,6 stig, -1,8 stig undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og -2,4 stig undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn +4,0 stig, -1,5 stig undir meðallagi 1961 til 1990 og -2,0 undir meðallagi síðustu tíu ára, samkvæmt tíðarfarsyfirliti á vef Veðurstofu Íslands.

Að tiltölu var hlýjast á Austfjörðum, mjög kalt var suðvestanlands og sérstaklega kalt á hálendinu þar sem snjóa leysti lítt eða ekki. Mesta jákvæða hitavik miðað við meðaltal síðustu tíu ára var -1,2 stig á Eskifirði, en mesta neikvæða vikið var í Veiðivatnahrauni, -4,1 stig undir meðallagi síðustu tíu ára.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur við Skarðsfjöruvita og í Önundarhorni, 5,3 stig, en lægstur á Gagnheiði, -3,8 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Möðrudal, 0,2 stig.

Landsmeðalhiti í byggð var undir frostmarki 6 daga snemma í mánuðinum. Það var sá 7. sem var kaldastur að tiltölu.

Fór hæst í 15,7 gráður en lægst í 18,1 stigs frost

Hæsti hiti mánaðarins mældist 15,7°C í Skaftafelli þann 22. Lægsti hiti á landinu mældist -18,1 stig á Brúarjökli þann 10. Lægsti hiti í byggð mældist -12,2 stig á Þingvöllum þann 5.

Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 13,4 stig í Ásgarði og á Bergstöðum þann 30., en lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum þann 10, -10,5 stig.

Mjög þurrt var fram eftir mánuði um landið vestanvert, en talsverð úrkoma var þá á Austfjörðum. Síðari hluta mánaðarins var úrkoma jafndreifðari um landið en endaði samt nokkuð undir meðallagi á Suðvestur-, Vestur- og Norðvesturlandi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 32,3 mm og er það 74 prósent af meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 18,4 mm. Það er 55 prósent af meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 20,2 mm og er það í meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 60,1 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 8 í Reykjavík, tveimur færri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 6 og er það einum fleiri en í meðalári.

Sólríkt í Reykjavík en ekki á Akureyri

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 277,9 og er það 86 stundir yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 35 stundir yfir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir á Akureyri mældust aðeins 99,8, 74 stundir undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 78 undir meðallagi síðustu tíu ára. Ekki hafa jafnfáar sólskinsstundir mælst í maí á Akureyri síðan 1983.

Alhvítt varð öðru hvoru í byggð á Norðausturlandi og norðan til á Vestfjörðum, einkum framan af mánuði, og undir lok hans varð aftur alhvítt á fáeinum stöðvum. Á Suðurlandi mátti heita alveg snjólaust – þó var einn alhvítur dagur í Reykjavík. Ekki varð alhvítt á athugunartíma á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert