„Telur forsendur til endurupptöku“

Starfshópur um Guðmundar- og Geirfinnsmálið skilaði niðurstöðum sínum í mars …
Starfshópur um Guðmundar- og Geirfinnsmálið skilaði niðurstöðum sínum í mars 2013. mbl.is/Rósa Braga

„Settur ríkissaksóknari í málinu, Davíð Þór Björgvinsson, telur að forsendur séu til þess að endurupptaka þetta mál og leggja það fyrir dóm að nýju,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar sem var sakborningur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Ragnar segir að í umsögn Davíðs Þórs sé það sálfræðimat Gísla Guðjónssonar sem vegi þyngst um að forsendur séu til þess að endurupptaka málið.

Settur saksóknari skilaði í gær áliti sínu til endurupptökunefndar í málum Guðjóns Skarphéðinssonar og Erlu Bolladóttur. Ekki er vitað hver niðurstaða saksóknara var í máli Erlu en Ragnar er einnig lögmaður hennar. Umsagnir Davíðs Þórs í málum Sævar Ciesielski, Tryggva Rúnars Leifssonar og Alberti Klahn Skaptasyni munu berast endurupptökunefndinni fyrir þann 1. júlí.

Endurupptökunefnd tekur nú málið fyrir og segir Ragnar að niðurstöðu sé að vænta undir lok árs, og verður þá tekin ákvörðun um hvort málið verði endurupptekið eða ekki.

Hann segir ómögulegt að segja hver endanleg niðurstaða nefndarinnar verði. „Almennt séð fara menn eftir afstöðu ríkissaksóknara. Það er samt aldrei að vita, endurupptökunefndin er ansi ný og svona stórt mál hefur ekki borið á hennar fjörur áður. Þetta er einnig mun eldra mál en önnur sem þangað hafa komið,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert