Varðskipið Týr komið heim

Varðskipið Týr kom til hafnar eftir 6 mánaða verkefni í …
Varðskipið Týr kom til hafnar eftir 6 mánaða verkefni í Miðjarðarhafi. mbl.is/Eggert

Varðskipið Týr lagði að bryggju við Ægisgarð í dag eftir sex mánuði við landamæragæslu fyrir Frontex, landamæragæslu Evrópusambandsins. Áhafnir skipsins komu að björgun rúmlega 2000 flóttamanna sem leita þess að komast til Evrópu frá Afríku.

Skipið var í Miðjarðarhafi frá því í lok nóvember á vegum Frontex og aðstoðaði það ítölsku strandgæsluna sem á fullt í fangi með að ráða við ört vaxandi straum flóttafólks frá Afríku.
Fagnaðarfundir voru á bryggjunni við Ægisgarð þegar áhafnarmeðlimir stigu á land eftir langa fjarveru frá fjölskyldu og vinum.

Georg K. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við mbl.is að þetta verkefni hefði staðið í fimm ár. „Við erum aðilar að Schengen og erum þátttakendur í landamæraeftirliti Evrópusambandsins. Við urðum fyrir áföllum í hruninu og urðum að finna leiðir til að halda Landhelgisgæslunni á floti.“ 

Gæslan hafi fengið þetta verkefni og önnur erlendis og hafi síðan verið í samstarfi við Frontex. „Það er skemmtilegt að segja frá því að þetta 40 ára gamla skip hefur bjargað fleira fólki á fimm árum þarna en 35 árum hér á landi. Við erum samt alls ekki að þessu til að græða, þetta snýst auðvitað fyrst og fremst um að bjarga flóttafólki,“ sagði Georg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert