Segir yfirlýsingum ekki fylgt eftir

Þingmenn ræddu um áhrif verkfalls heilbrigðisstarfsmanna á öryggi sjúklinga og …
Þingmenn ræddu um áhrif verkfalls heilbrigðisstarfsmanna á öryggi sjúklinga og heilbrigðiskerfið í morgun. mbl.is/Golli

Ef ríkisvaldið sýnir ekki að því sé alvara með að leggja inn fé í heilbrigðiskerfið þá nást ekki viðunnandi samningar milli deiluaðila. Þetta segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar í samtali við mbl.is. Í dag mætti forstjóri Landspítalans fyrir nefndina og rætt var um áhrif verkfalls heilbrigðisstarfsmanna á öryggi sjúklinga og heilbrigðiskerfið.

Þarf að sýna fjármunina svart á hvítu

Segir Sigríður að ríkisvaldið hafi gefið það út í yfirlýsingu í janúar að íslenska heilbrigðiskerfið ætti að vera með svipaða hlutdeild í landsframleiðslu og á Norðurlöndunum. Raunin væri sú að stór hluti rekstrarkostnaðar heilbrigðiskerfisins væri launakostnaður. Þá væri ekki mikið komið inn á þetta loforð í ríkisfjármálaáætlun sem liggur fyrir þinginu. „Það hafa verið gefnar út yfirlýsingar en þeim hefur ekki verið fylgt eftir, t.d. sést þeirra lítt stað í ríkisfjármálaáætlun“ segir Sigríður og bætir við að heilbrigðisstéttirnar séu langþreyttar á fjárskorti undanfarin ár. „Ef þú sýnir ekki aukna fjármuni svart á hvítu þá er erfitt að semja,“ segir hún.

Fækkar ekki sjúklingum

Sigríður tekur fram að þó að hagur ríkisins hafi vænkast síðustu misserin, þá þurfi áfram að forgangsraða af aga í ríkisfjármálunum. Heilbrigðiskerfið hafi aftur á móti tekið á sig niðurskurð til viðbótar við að hafa verið fjársvelt fyrir hrun. „Ef þú ætlar að spara þar fækkar þú ekki sjúklingum, heldur starfsfólki sem þarf þá að vinna meira og með minni tekjur,“ segir hún og bætir við að þegar aðilar semji þurfi að mætast, en ríkisvaldið hafi ekki enn komið með trúverðuga lausn þar sem það leggi það inn í heilbrigðiskerfið sem þurfi að leggja þar inn.

Á fundinum í morgun var ekki rætt um einstaka þætti í kjaramálum eða undanþágulista. Sagði Sigríður að fundirnir væru til upplýsinga fyrir nefndina, en svipaðir fundir hefðu verið haldnir þegar hjúkrunarfræðingar sögðu upp og í læknaverkfallinu. Sagði hún forstjóra spítalans hafa lýst miklum áhyggjum af ástandinu og deildi hún þeim áhyggjum.

Blanda sér ekki í kjaradeilu

Aðspurð hvort rætt hefði verið um lögbann á verkfallið eða aðrar álíka aðgerðir af hálfu Alþingis sagði Sigríður að það væru vaxandi umræður um slík í samfélaginu, en að málið væri mjög viðkvæmt og að þessi stéttir væru orðnar mjög langþreyttar og að það þyrfti mikið til þess að þær færu í verkfall. „Við erum ekki að blanda okkur í kjaradeilu, en viljum vera upplýst um málið,“ sagði Sigríður.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert