1,3 milljarðar greiddir vegna lánsins

SPRON.
SPRON. mbl.is/Rax

Telja má að um 1,3 milljarðar króna hafi verið greiddir til baka vegna tveggja milljarða króna peningamarkaðsláns sem SPRON veitti Exista 30. september 2008. Þetta kom fram í máli Daníels Isebarn Ágútssonar, verjanda eins af sakborningunum í SPRON-málinu svonefnda, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Fyrrum forstjóri SPRON og fjórir fyrrum stjórnarmenn sparisjóðsins eru ákærðir fyrir umboðssvik vegna lánsins.

Daníel sagði að samkvæmt sínum útreikningum væri búið að greiða um 1,3 milljarða króna vegna lánsins. Það þýddi að endurheimtur þess væru um 65%. Um væri að ræða 930 milljóna króna greiðslu Klakka til ESÍ, Eignasafns Seðlabanka Íslands, og 350 milljóna króna greiðslu sem slitastjórn SPRON fékk vegna nauðasamninga Exista.

Hrafnkell Óskarsson, lögmaður Klakka, sagði fyrir dómi í gær að Klakki hefði greitt 930 milljónir króna til ESÍ eftir að Drómi, slitastjórn SPRON, lauk störfum.

Bar fyrir sig trúnaði

Hrafnkell bar reyndar í fyrstu fyrir sig trúnaði og óskaði Daníel Isebarn þá eftir því að dómarar málsins úrskurðuðu um hvort aflétta ætti trúnaðinum. Eftir stutt hlé kváðu dómararnir úrskurð sinn um að Hrafnkell skyldi upplýsa um málið. Sagði Hrafnkell þá að Klakki hefði greitt ESÍ og að fjárhæðin væri 930 milljónir króna.

Greiðslan kom til vegna riftunar- og skaðabótamáls sem slitastjórn SPRON höfðaði gegn VÍS. Málið hefur verið fellt niður. Með samkomulagi slitastjórnarinnar og VÍS féllust samningsaðilar á að þeir ættu engar frekari kröfur á hendur hvor öðrum, hverju nafni sem þær kunna að nefnast, eins og fram kom í fréttatilkynningu frá VÍS á sínum tíma.

Áður hefur komið fram að Klakki ákvað að halda VÍS skaðlausu vegna málsins.

Fram kom í máli Hrafnkels í gær að Klakki ynni enn að því að koma eignum í verð til að auka endurheimtur nauðasamningskröfuhafa. Þeirri vinnu væri ekki lokið.

Sagði Daníel Isebarn að miðað við stöðuna eins og hún væri í dag á umræddu láni SPRON, þ.e. að endurheimtur væru 65%, þá mætti jafnvel gera ráð fyrir að þær yrðu að lokum allt að 80%. „Það er ekki slæmt eftir efnahagshrunið að fá 80% endurheimtur af lánveitingu,“ sagði Daníel. 

Frá aðalmeðferð í SPRON-málinu.
Frá aðalmeðferð í SPRON-málinu. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert