Allt á kafi í snjó á Austurlandi

Fannhvít jörð blasti við á Vaðbrekku í morgun.
Fannhvít jörð blasti við á Vaðbrekku í morgun. Skjáskot af Facebook

Í dag leikur sólin við íbúa höfuðborgarsvæðisins og eftir langa bið virðast trén loksins vera að laufgast. Slíkrar lukku njóta þó ekki allir landsmenn eins og sjá má í myndskeiðinu hér að neðan en það sýnir fannhvíta jörð og snjókomu við bæinn Vaðbrekku á Jökuldal, sem er í um klukkutíma fjarlægð frá Egilsstöðum. Myndbandið birti fjölmiðlakonan og bóndinn Sigga Lund á Facebook síðu sinni í morgun.

„Það er búið að snjóa alveg helling undanfarið. Á nóttunni, aðeins yfir daginn, slydda. Ég vaknaði við þetta í morgun og í gærmorgun. Það er allt hvítt og þung snjókoma,“ segir Sigga. Hún segist orðin langþreytt á snjónum sem lét fyrst sjá sig í dalnum þann 14. október og hefur varla horfið síðan. „Þetta er alveg að verða komið gott,“ dæsir hún og hlær. 

Sigga flutti á Vaðbrekku um þetta leyti á síðasta ári og segir að þá hafi allt fé verið komið á fjöll auk þess sem dalurinn var iðagrænn. „Ég man að ég fór í sólbað áður en ég fór að taka innbúið af trukknum. Núna er ekki hægt að hleypa fénu á fjöll því það er ekkert byrjað að gróa, það er ekkert orðið grænt.“

Heyið fer að klárast

Veðráttan á Vaðbrekku virðist allt að því fyndin í augum borgarbarnsins en eins og Sigga bendir á þá er hún hreint ekkert grín. Fjölmörg þeirra vorverka sem ætti að vera lokið sitja á hakanum sökum kulda.
Sigga segir að fénu sé hleypt út þegar þess er kostur en að í morgun hafi það t.a.m. ekki verið hægt. „Svo fer heyið sem við heyjuðum síðasta sumar að klárast. Þetta setur strik í reikninginn varðandi búskapinn fyrir utan hvað það er orðið langþreytt að fá ekki sól og sumar,“ segir hún og bætir við að heimilisfólkið hafi oft orðið innlyksa vegna veðursins. 
„Ég ætlaði að fara í klippingu núna í apríl og ég þurfti að afbóka mig af því að það ófært, ég komst ekkert fyrir snjó. “
Sigga hefur búið í Reykjavík nær alla sína tíð og hefur því skilning á því þegar borgarbúar kvarta undan veðráttunni, þrátt fyrir að þurfa ekki að þola viðlíka veðurfar og lýst er hér að ofan. „Þessi vetur hefur verið þungur fyrir alla Íslendinga og ég skil 100 prósent að allir vilji fá almennilegt veður. Ég legg þetta ekki á hvern sem er skal ég segja þér.“
Sigga segir veðráttuna setja strik í reikninginn varðandi búskapinn.
Sigga segir veðráttuna setja strik í reikninginn varðandi búskapinn. Ljósmynd/Sigga Lund
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert