Keppnisskapið innbyggt í Íslendinga

Katrín Tanja fagnar sæti á heimsleikunum í crossfit.
Katrín Tanja fagnar sæti á heimsleikunum í crossfit.

„Annie Mist er frábær fyrirmynd,“ segir Katrín Tanja Davíðsdóttir sem tryggði sér sæti á heimsleikunum í crossfit í Kaliforníu á dögunum.

Mbl.is náði tali af Katrínu Tönju en hún var nýlent á Íslandi eftir að hafa tekið þátt í Evrópumeistaraleikunum í crossfit í Kaupmannahöfn um helgina. Fimm efstu í kvenna-, karla- og liðakeppninni hafa nú tryggt sér sæti á heimsleikunum í crossfit sem haldnir verða í Carson í Kaliforníu seinna í sumar. Hörð samkeppni er um þáttökurétt á mótinu og þá sérstaklega í Evrópuriðlinum þar sem Íslendingar eiga nú fjóra af fimm fulltrúum í kvennaflokki.

Katrín segir að crossfit sé í rauninni keppni í öllu. Keppendur viti ekki fyrir mót í hvaða greinum sé keppt en almennt séu þetta fimleikaæfingar, body-fit æfingar og ólympískar lyftingar sem svo er blandað saman. „Það skemmtilegasta við crossfit er að maður veit aldrei hvaða æfingar koma á mótunum.“

Aðspurð út í undirbúning fyrir mót sem þetta segir Katrín að hún æfi tvisvar sinnum á dag, fimm daga vikunnar. Hún byrji morgnana á lyftingum og tækni og taki svo þolæfingar seinnipartinn. Á mótunum sjálfum skipti svo miklu máli að halda fókus og einbeita sér að sjálfum sér, ekki vera of upptekin af því hvað andstæðingarnir eru að gera.

Íslendingar eiga nú fjóra af fimm fulltrúum í kvennaflokki og segir Katrín að hér á landi sé mikill áhugi fyrir crossfit. Hún bendir á að hér séu margar flottar fyrirmyndir eins og Annie Mist en þær taka æfingar saman af og til. Katrín segir keppnisskapið innbyggt í Íslendinga og það komi fólki langt í keppnum sem þessum.

Fjöldi Íslendinga lagði leið sína til Kaupmannahafnar til að styðja íslensku keppendurna og segir Katrín þann stuðning ómetanlegan, „helmingur af stúkunni voru Íslendingar.“

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir stóð uppi sem sigurvegari og tryggði sér þar með Evrópumeistaratitilinn í crossfit. Þá tryggðu þær Katrín Tanja Davíðsdóttir, Annie Mist Sigurðardóttir og Þuríður Erla Helgadóttir sér einnig sæti á heimsleikunum. Björgvin Karl Guðmundsson verður fulltrúi Íslands í karlaflokki og íslenska crossfitliðið CrossFit Reykjavík í liðakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert