Kjarabarátta „um líf fólks og heilsu“

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er alveg skelfilegt til þess að vita að kjarasamningar og kjarabarátta skuli snúast um líf fólks og heilsu. Það er gríðarlega erfitt að nálgast samninga þegar annað eins hangir á spýtunni og því ríður á að báðir samningsaðilar setjist niður, reyni að koma sér saman um hlutina og leysa úr því ófremdarástandi sem skapast hefur.“

Þessi orð lét Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, falla á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Sagði hann að það væri „gríðarlega sárt og erfitt og mikið áhyggjuefni að ekki skuli hafa gengið betur saman með félagsmönnum BHM og ríkinu og er vonandi það leysist sem allra fyrst.“ Á sama tíma væri ánægjulegt að gengið hafi verið frá kjarasamningum við stærstan hluta launþega á almennum markaði fyrir helgi.

„Að sönnu eru samningarnir djarfir og munu reyna á þanþol efnahagslífsins, en engu að síður er meginþema þeirra í anda þess sem við framsóknarmenn höfðum samþykkt og ályktað um á okkar flokksþingi, það er að lágmarkslaun yrðu á samningstímanum 300.000 krónur. Þessir samningar eru þannig uppbyggðir að þeir koma mest til góða þeim sem lægst hafa laun og millitekjur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert