Landslið í bandý stofnað

Landsliðið stillir sér upp fyrir myndatöku.
Landsliðið stillir sér upp fyrir myndatöku. KRISTINN INGVARSSON

Ólafur Björgvin Sveinsson er einn af forkólfum þess að stofna íslenskt landslið í bandý um þessar mundir. „Hinir sem er með mér í stjórninni fóru á HM í desember og hittu þar mikið af liðunum, Breta og fleiri minni lið og fengu að sjá hvernig staðan er í innibandýinu. Þá tókum við þá ákvörðun að vera með af því við töldum okkur ekki lakari en mörg lið þarna,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is.

Hann sagði bandý vera svipað og það sem margir spreyta sig á í leikfimi í grunnskóla, hlaupið sé með kylfur og lítinn plastknött, eins og íshokkí innanhús. „Já, þetta er svipað og það en auðvitað eru fleiri reglur í kringum þetta hjá okkur.“

Í bandý eru sex menn í liði, þar af einn markmaður og hafa allir leikmenn utan markmanns kylfu til að stjórna og skjóta kúlunni en markmaður ver markið með höndum og fótum. Leikmenn mega ekki viljandi nota hendur eða höfuð til að stjórna kúlunni en mega snerta hana einu sinni í einu með fótum. Ekki er leyfilegt að skora eða gefa sendingar með höndum eða fótum.

Markið sett hátt

Stefnan er sett á að taka þátt í stórmótum. „Við erum skráðir til leiks í undankeppni HM sem fer fram í lok febrúar. Það á eftir að draga í riðla þannig við vitum ekki hvar það verður. Sem undirbúning fyrir það ætlum við að spila tvo æfingaleiki í haust við Bandaríkin og Serbíu í Svíþjóð.“

Ólafur býr í Svíþjóð, eins og nokkrir leikmanna liðsins. „Fimm okkar búa í Svíþjóð og einn í Noregi, restin býr á Íslandi.“ Bætti hann við að íþróttin sé tengd Svíþjóð enda séu þeir og Finnar með sterkustu liðin.

Þátttakan kostnaðarsöm

„Kostnaðurinn við að taka þátt liggur meira og minna hjá okkur leikmönnum en við eigum eftir að athuga með styrktaraðila. Þetta er náttúrulega eins og hokkíið hefur alltaf verið, það er liðið sem borgar og það verður bara að taka því.“ Tilgangur stofnunar landsliðs er líka að vekja áhuga ungs fólks á bandý. „Við höfum heyrt það frá hinum liðunum að þegar landslið voru stofnuð komst þetta meira á skrið hjá þeim.“

Hart barist.
Hart barist. KRISTINN INGVARSSON
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert