Lífeyrisþegar njóti sömu hækkana

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég óska eftir því að lífeyrisþegar njóti sömu hækkana og aðrir. Ég mun beita mér fyrir því, því að það er ekki hægt að við skipum lífeyrisþegum skör neðar og tökum beinlínis ákvörðun um það hér á Alþingi að auka ójöfnuð með því að láta þá ekki njóta sömu hækkana.“

Þetta sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hún gerði að umtalsefni sínu kjör lífeyrisþega. Lýsti hún yfir áhyggjum af því að ekki væri afdráttarlaust lýst því yfir að lífeyrisþegar muni njóta sömu hækkana og launþegar á vinnumarkaði. Benti hún á að bæði Landssamband eldri borgara og Öryrkjabandalagið hafi hvatt stjórnvöld til þess að tryggja það að öryrkjar nytu sömu hækkunar og í kjarasamningum og að eldri borgarar nytu sömu kjara og aðrir á vinnumarkaði.

Þá sagði Sigríður að boðaðar skattalækkanir í tengslum við kjarasamninga myndu ekkert gagnast stórum hluta þessa hóps auk þess sem aukin greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu kæmi mjög illa við hann. „Ég höfða til réttlætiskenndar þingmanna og hvet til þess að við tryggjum að þessir hópar njóti sömu kjaraleiðréttinga og aðrir hópar í samfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert