Man allt sem hún les

Guðlaug Björt hlaðin verðlaunum fyrir góðan árangur á stúdentsprófi.
Guðlaug Björt hlaðin verðlaunum fyrir góðan árangur á stúdentsprófi. Mynd úr einkasafni

„Mig grunaði að ég myndi fá hæstu einkunn en FS er ekki með bekkjakerfi þannig að ég gat ekkert vita um alla hina krakkana. Kannski hefði einhver af annarri braut getað fengið hærra en ég. Ég vissi samt að ég væri með í kringum 9,5 sem er frekar há einkunn,“ sagði Guðlaug Björt Júlíusdóttir, dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja í samtali við mbl.is. Guðlaug, sem er dóttir Ásgerðar Þorgeirsdóttur og Júlíusar Valgeirssonar hlaut 9,5 í einkunn og lauk námi á þremur árum.

76 nemendur útskrifuðust úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja, 50 stúdentar, 6 sjúkraliðar, 9 brautskráðust af starfsbraut, 9 úr verknámi og 14 luku námi af starfsnámsbrautum. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur námsbrautum. Konur voru 39 útskrifaðra og karlar 37.

Aðspurð sagðist Guðlaug ekki hafa sett sér markmið að fá hæstu einkunn allra. „Ég stefndi ekki beint á þetta en þegar farið var að líða á skólann og ég var alltaf að fá svona hátt vildi ég klára þetta af krafti, ekki slaka á í lokin eða eitthvað þannig.“ 

Hún sagði að límheilinn hennar hjálpi mikið til við námið. „Ég man allt og þarf bara að lesa hluti einu sinni til að muna þá. Ég legg mikinn metnað í að fara yfir allt efnið og skipulegg mig vel því er á fullu í körfubolta með skólanum.“ Hún spilar með meistaraflokki Grindavíkur í körfubolta síðasta vetur og ætlar að nota sumarið í að æfa sig á þeim vettvangi. „Ég ætla að æfa körfu í sumar og slaka á.“

Næsta vetur ætlar Guðlaug að vinna sem stuðningsfulltrúi í Akurskóla í Njarðvík og stefnir á frekara nám haustið 2016. „Mig langar að fara í verkfræði eða eitthvað tengt því vegna þess að ég fékk alltaf hæst í stærðfræði og raungreinum. Ég veit samt ekki hvort ég ætla í nám hér á landi vegna þess að ég og kærastinn minn erum bæði í körfubolta og gætum farið saman út og fengið til þess styrk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert