Minni kostnaður að kaupa skanna

„Það er mjög mikið til af efni. Við vinnum að því sjálf að færa það yfir á stafrænt form. Það er mjög kostnaðarsamt og er ekki endilega ofarlega á forgangslistanum hjá okkur,“ segir Pálmi Guðmundsson, forstöðumaður ljósvakamiðla Skjásins, en nýlega sameinuðust Skjár einn og Síminn.

Pálmi segir að sá möguleiki sé ávallt fyrir hendi að sjónvarpsefni geti glatast þó hann telji að sú hafi ekki verið raunin hjá sjónvarpsstöðinni. Hann bendir á að hins vegar sé alltaf ákveðin hætta fólgin í því þegar verið er að flytja efni á milli forma, t.d. koma efni á spólum yfir á stafrænt form.

Eintök af Tantra tryggð

Á upphafsárum sjónvarpsstöðvarinnar SkjásEins, rétt fyrir síðustu aldamót, framleiddi hún marga íslenska sjónvarpsþætti. Þetta voru m.a. þættirnir Djúpa laugin, Tantra og Piparsveinninn. Pálmi fullyrðir að frumgerð þessara þátta sé til. Hann tekur þó fram að efni eldist misvel og í þessu samhengi vísar hann til þess að sumt efni sé ekki til þess fallið að vera endurútgefið.

„Í þessum miklu stafrænu breytingum sem eiga sér stað núna þá finnum við fyrir auknum áhuga fólks á ýmsu gömlu efni,“ segir Pálmi og bætir við að þá sé mikilvægt að slíkt hafi verið varðveitt. Hann telur því mikilvægt að varðveita sjónvarpsefni. Hann segist þó gera sér grein fyrir því að það sé ekki raunhæft að varðveita allt efni sem framleitt er.

„Í seinni tíð leigjum við sýningarrétt á sjónvarpsefni beint af framleiðendum. Við megum því ekki geyma það lengur en sýningarrétturinn segir til um, eigandinn er framleiðandinn.“

Samkvæmt lögum má Kvikmyndasafn Íslands óska eftir tilteknu sjónvarpsefni hjá sjónvarpsstöðvum til varðveislu. Að sögn Erlends Sveinssonar, forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands, hefur safnið ekki gert tilkall til þess.

„Við höfum ekki haft tök á því enn sem komið er. Við þyrftum að hafa að minnsta kosti eina manneskju til viðbótar eingöngu í því að sinna því ásamt öðrum skilaskylduverkefnum. Við viljum trúa því að stöðvarnar passi sjálfar upp á það efni sem þeim finnst mikilvægt að varðveita,“ segir Erlendur.

Hann bendir á að eftir sem áður sé töluvert af sjónvarpsefni varðveitt í Kvikmyndasafninu frá ýmsum sjónvarpsstöðvum, t.d. allt filmusafn RÚV og myndbönd að auki, töluvert er af efni frá Stöð 2 og einnig nokkuð af efni frá Skjá einum.

Ekki er skilaskylda til safnsins á öllu sjónvarpsefni sem framleitt er en RÚV afhendir safninu útsenda dagskrá sína í heild á dvd-diskum skv. skilaskyldulögum en passar síðan sjálft upp á framleiðslu. Mikil vinna er framundan við að yfirfæra allt filmusafn RÚV og myndbönd sjónvarpsstöðvanna í nothæft stafrænt form skv. kröfum tímans.

Erlendur segir að eins og staðan sé núna þá sé safnið í stöðugri „baráttu við óreiðuna“ og vísar til þeirra ótal mörgu verkefna sem safnið stendur frammi fyrir.

Endurskráning og pökkun

„Við höfum undan við að skrá efni sem kemur nýtt inn auk þess sem við erum að glíma við endurskráningu og pökkun kvikmynda sem bárust safninu fyrir síðustu aldamót, og aftur til um 1980. Þetta efni bíður þess að verða fært yfir í stafrænt form og á það raunar við um allt íslenskt myndefni safnsins, því þó svo að safnið hafi verið að skanna síðan 2007 þá gera gæðakröfur nútímans og framtíðarinnar það að verkum að þetta verk þarf að vinna allt upp á nýtt. Við erum að gera okkur klár til að taka við stafrænum kvikmyndum og aðlaga gagnagrunn okkar, Filmíu, að þeim heimi. Við erum að komast á beinu brautina þar en við komumst því miður ekki yfir allt sem þarf að gera.“

Erlendur segir að kvikmyndakaflann í lögum um skilaskyldu til safna nr. 20/2002 þurfi að endurskoða vegna þessa breytta veruleika og þá þyrfti löggjafinn að tryggja enn betur en gert er varðveislu íslensks sjónvarpsefnis til frambúðar ekkert síður en íslenskra kvikmynda.

Skannað fyrir milljónatugi

„Við verðum að fá nýjan skanna svo hægt verði að koma filmusöfnum Kvikmyndasafnsins og RÚV á stafrænt form og miðla þeim til almennings,“ segir Erlendur Sveinsson, forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.

Hann segir skönnun vera forsendu þess að hægt sé að hlúa að efninu með viðgerðum og sýna það og sé því snar þáttur í varðveislu kvikmyndaarfsins.

Til að koma filmum yfir á nothæft stafrænt form hefur tugum milljóna verið varið í skannanir erlendis, með dýrum og hættulegum flutningi frumfilma og frumhljóðs á milli landa sem ekkert tryggingafélag vill koma nálægt, að sögn Erlends.

Hann segir einu skynsamlegu leiðina vera að eignast nýjan skanna sem muni endast næstu 15 árin. Safnið hefur kannað hvaða skanni myndi henta því og lagt niður fyrir sér rökstuðning fyrir slíkum kaupum. Safnið mun fljótlega kynna niðurstöður og röksemdir þeim sem hafa ákvörðunarvald.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert