Spáir góðu hlaupaveðri

Heilsuhlaup Krabbameinsfélags Íslands
Heilsuhlaup Krabbameinsfélags Íslands mbl.is/Styrmir Kári

Hið árlega heilsuhlaup Krabbameinsfélagsins fer fram á morgun, fimmtudag og hefst klukkan 19:00 við hús Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8 í Reykjavík.

Forskráning í hlaupið er hafin á hlaup.is og stendur til klukkan 14:00 fimmtudaginn 4.júní. Þá er hægt að skrá sig til 18:00 sama dag í húsnæði Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8. Þáttökugjaldið er 2.500 kr. fyrir fullorðna og 700 kr. fyrir börn.

Hægt er að velja um þriggja kílómetra skokk eða göngu frá Skógarhlíð að Öskjuhlíð og til baka eða tíu kílómetra hlaup suður fyrir Reykjavíkurflugvöll og til baka. Tími verður mældur hjá öllum og úrslit birt eftir aldursflokkum.

Þetta er í tuttugasta og fjórða skipti sem hlaupið fer fram og hefur það notið mikilla vinsælda síðustu ár. Sigurlaug Gissurardóttir, einn skipuleggjanda hlaupsins er bjartsýn á góða þáttöku í ár enda spáð góðu hlaupaveðri á fimmtudag.  

Skráningargögn verða afhent hjá Krabbameinsfélaginu að Skógarhlíð 8 frá klukkan 14:00-18:00 fimmtudaginn 4. júní.

Vegleg verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjú sætin í karla- og kvennaflokki í báðum vegalengdum auk útdráttarverðlauna frá fjölda fyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert