„Það er hugur í fólki“

Hjúkrunarfræðingar í bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
Hjúkrunarfræðingar í bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Fólk er áhyggjufullt fyrir hönd skjólstæðinga sinna en hjúkrunarfræðingar vinna með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. En það er hugur í fólki,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, en félagsmenn hafa nú verið í verkfalli í rúma viku. „Fólk vill að það sé gengið þarna ákveðið skref í því að jafna launamun kynjanna og að hjúkrunarfræðingar séu með sömu laun og aðrir háskólamenn.“

2100 hjúkr­un­ar­fræðing­ar leggja niður störf í verkfallinu, þar af um 1400 á Land­spít­al­an­um. Hluti þeirra verða áfram í vinnu til þess að tryggja ör­yggi sjúk­linga sam­kvæmt und­anþágulist­um sem fyr­ir liggja.

Ólafur segir það ljóst að verkfallið hefur nú þegar haft gríðarleg áhrif á heilbrigðiskerfið. „Það hefur þurft að loka dag- og göngudeildum, útskrifa sjúklinga, fella niður aðgerðir, heimahjúkrun er búin að dragast verulega saman og heilsugæslan er óstarfhæf hjúkrunarmegin.“

Aðspurður hvort að það komi félagsmönnum á óvart að verkfallið hafi fengið að standa í heila viku svarar Ólafur því játandi. „Það hefur komið mörgum hjúkrunarfræðingum á óvart hversu langan tíma það hefur tekið að ljúka þessu en ég átti alveg eins von á þessu.“

Síðast var fundað í deilunni hjá ríkissáttasemjara á föstudaginn. „Það hefur ekkert gerst í millitíðinni í deilunni en ég fer svona hóflega bjartsýnn á fundinn.“

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert