Útimarkaður á Bernhöftstorfu í sumar

Útimarkaðurinn verður á Bernhöftstorfunni sex laugardaga í sumar.
Útimarkaðurinn verður á Bernhöftstorfunni sex laugardaga í sumar.

Tónlist, plöntur, bretti og leikföng eru á meðal þema útimarkaðar sem haldinn verður á Bernhöftstorfunni í miðborg Reykjavíkur í sumar. Markaðurinn verður sex laugardaga í júní og júlí og nefnist Bernhöfts Bazaar. Uppákomur verða í tengslum við hvert þema þar sem gestir geta sest og notið sumarblíðunnar.

Markaðurinn fær mismunandi þemu þá sex laugardaga sem hann mun standa yfir, frá 20. júní til 25. júlí. Þemu markaðanna eru tónlist, plöntur, bretti-og hjól, leikföng, beint frá ömmu og list. Í tilkynningu frá aðstandendum markaðarins kemur fram að nú sé leitað að  allskyns fólki til að taka þátt í sumrinu, bæði einstaklingum og fyrirtækjum. 

Markaðurinn er hannaður og stjórnað af Þóreyju Björk Halldórsdóttur og Laufeyju Jónsdóttur og er partur af „Torg í biðstöðu“verkefni Reykjavikurborgar.

„Á dagskrá verða ekki bara krakkar með tombólu, listamenn að „pimpa“ hjól og afi að selja sultur heldur verða uppákomur á hverjum markaði í tengslum við þemu, þar sem gestir geta fengið sér sæti og notið samveru og sumarblíðu. Nágrannaveitingahús Bernhöftstorfunnar munu svo bjóða uppá kælandi veitingar fyrir alla fjölskylduna,“ segir í tilkynningunni.

Vefsíða Bernhöfts Bazaars

Facebook-síða Bernhöfts Bazaars

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert