„Við lesum villt og galið framhjá“

Margrétarnar tvær komu til spjalls á sólríkum degi, Margrét Sveinbjörnsdóttir …
Margrétarnar tvær komu til spjalls á sólríkum degi, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Margrét Ágústsdóttir með danska bók um bókaþjófnað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við erum allar miklir lestrarhestar, lesum bækur á íslensku, ensku og norðurlandamálunum. Við lesum mest skáldsögur, en líka ljóð og heimildaskáldsögur. Það er mjög skemmtilegt að vera Lespíur,“ segja Margrétarnar tvær, Sveinbjörnsdóttir og Ágústsdóttir, um leshópinn Lespíurnar sem þær báðar tilheyra.

„Þetta byrjaði allt á því að ég vildi ekki missa tengslin við mágkonu mína sem ég hafði þekkt í aldarfjórðung, þegar hún og bróðir minn skildu. Ég lagði því til við systur mína að við stofnuðum leshring með mágkonunni fyrrverandi. Þetta var fyrir tæpum áratug og hefur undið upp á sig og nú eru Lespíurnar orðnar níu,“ segir Margrét Ágústsdóttir.

Margrét Sveinbjörns segir það vera afskaplega mikinn heiður að fá að komast inn í félagsskap Lespíanna, því það sé ekkert hlaupið að því.

„Ég var að vinna með einni úr hópnum og hún var alltaf að dásama félagsskapinn og segja mér frá bókunum sem þær voru að lesa. Ég var farin að lesa þessar bækur, svo hún stakk á endanum upp á að ég gengi til liðs við þær. Eitt af því sem er frábært við félagsskapinn er að ég kynnist allskonar bókum sem ég annars hefði aldrei lesið, af því við erum allar ólíkar og með misjafnan smekk, enda komum við úr ólíkum áttum.“

Íslenskar bækur oft ofmetnar

Lespíurnar hittast á sex vikna fresti yfir veturinn og sú sem býður heim til sín hverju sinni ákveður hvaða bók skal lesa.

„Sú hin sama eldar líka ofan í hópinn, svo þetta er líka matarboð. Við byrjum yfirleitt á almennu spjalli um pólitík og samfélagsmál og líka okkar einkamál. En við tökum ákveðinn tíma í að ræða bækurnar. Við nennum ekki að lesa hvað sem er og þetta er enginn jákór, skoðanir á bókunum geta verið afar ólíkar, sumar hafa kannski grýtt þeim frá sér út í horn en aðrar hefja þær upp til skýja. Og þá tökumst við á, og það er gaman. Margar íslenskar bækur eru ofmetnar, sumar þeirra eru markaðssettar þannig að maður verður rosa spenntur en svo er ekki endilega innistæða fyrir lofuðum gæðum. Oft skortir ritstýringu, þær eru margar allt of langar,“ segir Margrét Ágústsdóttir.

Fá höfunda í heimsókn til sín

Lespíurnar fá stundum til sín höfunda þegar þær hafa verið að lesa bækur þeirra.

„Gerður Kristný, Eyrún Ingadóttir og Lilja Sigurðardóttir hafa heimsótt okkur og rætt bækur sínar. Við erum líka duglegar að fara á upplestra, til dæmis húslestrana á Listahátíð, þar sem höfundar bjóða heim,“ segja þessar bókelsku konur og játa fúslega að þær lesi villt og galið framhjá klúbbnum.

„Klúbburinn fer í frí yfir sumarið, en núna eigum við eftir að halda einn fund áður en vetrarstarfi lýkur. Við eigum eftir að hittast og ræða danska bók, skáldsöguna Profeterne i Evighedsfjorden, eftir Kim Leine, en hún hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2013. Hún gerist á átjándu öld og við lesum hana á dönsku.“

Þjófnaður og óstjórn

Lespíurnar lásu nýlega dönsku bókina Det store bogtyveri, en þar segir frá bókaþjófnaðarmáli sem átti sér stað í konunglega bókasfninu í Kaupmannahöfn á áttunda og níunda áratugnum. Í framhaldinu fóru fimm af Lespíunum í menningarferð til Danmerkur og heimsóttu söguslóðir.

„Þessi saga segir frá sönnu máli þar sem starfsmaður á bóksafninu stal mörgum verðmætum ævafornum bókum. Þetta byrjaði allt á því að hann tók þær með sér heim til gamans, en fór síðan að selja bækurnar. Hann fékk tengdadóttur sína og fleiri til liðs við sig og þau sáu um sambönd við uppboðshús. Þetta komst ekki upp fyrr en áratugum síðar þegar karlinn var dáinn. Dómur yfir vitorðsmönnum hans féll árið 2004, en reynt var að þagga þetta niður því augljóslega var mikil óstjórn á konunglega bókasafninu fyrst karlinn gat gert þetta svona lengi án þess að nokkuð kæmist upp.“

Leiðréttu leiðsögumanninn

Lespíurnar voru í fjóra daga í Kaupmannahöfn og nýttu tímann vel, fóru í Kanalsiglingu, á konunglega sýningu í Amalienborgarhöll, á Karen Blixen safnið og skoðuðu þrjár magnaðar sýningar á listasafninu Louisiana í Humlebæk.

„Við héldum aðalfund félagsins á konunglega bókasafninu en fyrst fórum við í skoðunarferð með leiðsögumanni um bókasafnið. Hann var kornungur og vissi miklu minna en við um bókaþjófnaðarmálið, við þurftum stundum að leiðrétta hann,“ segja þær og skellihlæja.

„Í fundargerð færðum við til bókar að næsti aðalfundur Lespíanna yrði haldinn í Boston og við ætlum að gista í Cambridge. Við verðum því að finna bók sem gerist á þeim söguslóðum. Utanlandsferðir Lespíanna eiga eftir að verða fleiri. Við erum í útrás.“

Lespíur héldu aðalfund á Café Ø í Konunglega bókasafninu í …
Lespíur héldu aðalfund á Café Ø í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn. F.v: Margrét Sveinbjörnsdóttir, María Þorgeirsdóttir, Unnur Ágústsdóttir, Margrét Ágústsdóttir og Hrönn Hrafnsdóttir. Auk þeirra eru í Lespíunum Ása Björk Stefánsdóttir, Hrund Rudolfsdóttir, Arndís Þorgeirsdóttir og Sigríður E. Sigurðardóttir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert