„Við nánast leggjumst á hnén“

Sjúkrahúsið á Akureyri
Sjúkrahúsið á Akureyri Skapti Hallgrímsson

„Þetta gengur ennþá en við erum farin að sjá veruleg áhrif af þessu verkfalli,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkr­un­ar­sviðs Sjúkra­húss­ins á Ak­ur­eyri en verk­fall hjúkr­un­ar­fræðinga í Fé­lagi ís­lenskra hjúkr­un­ar­fræðinga hefur nú staðið yfir í sjö daga.

Hildigunnur segir að verkfallið hafi orðið til þess að öll þjónusta á sjúkrahúsinu taki nú lengri tíma og leiðir það jafnframt til lengri biðlista.

„Aðgerðum hefur fækkað verulega. Sjúklingar eru ekki kallaðir inn til meðferðar þannig þeir bíða. En það að þetta verkfall bætist við verkfall lífeindafræðinga gerir hlutina ekki einfaldari,“ segir Hildigunnur.

Hún segir að sjúkrahúsið hafi átt í góðu stamstarfi við FÍH og undanþágunefnd þess. Sótt er um fjölmargar undanþágur á hverjum degi og hefur stór hluti þeirra verið samþykktur. „En það hafa ekki allar verið samþykktar og í sumum tilfellum vorum við ekki sátt við það. En við reynum bara að finna lausn á þeim málum. En það hefur ekki enn komið til stórra vandræða.“

Hver hendi er mikilvæg

Hjúkrunarsvið sjúkrahússins er rekið með helmingsmönnun í verkfallinu. Vanalega eru níutíu hjúkrunarfræðingar á dagvakt en nú eru þeir aðeins 45. Að sögn Hildigunnar eru sumarafleysingarstarfsmenn að hefja störf á sjúkrahúsinu og er það bæði gott og slæmt.

„Það er gott að það eru komnar fleiri hendur en þetta er nýtt fólk og óvant sem þarf að vera undir handleiðslu reyndari starfsmanna sem ekki eru nógu margir fyrir. Það getur skapað vandræði en ekki má gleyma að hver hendi er mikilvæg við þessar aðstæður.“

Hildigunnur segir að það skipti verulega miklu máli að deiluaðilar semji sem fyrst. „Við erum í þeirri stöðu í dag að við nánast leggjumst á hnén og óskum eindregið eftir því að deiluaðilar nái að semja. Þetta skiptir verulega miklu máli og við trúum því frá degi til dags að þetta hljóti að fara að gerast.“

Ekki hægt að tryggja öryggi þeirra sem bíða

Aðspurð hvort að það komi henni á óvart hversu lengi verkfallið hefur fengið að standa svarar Hildigunnur því játandi.

„Ég átti von á að þetta væri búið fyrir miðja viku. Ég var nú reyndar fyrst svo bjartsýn að halda þetta yrði búið á mánudaginn. En ég vil trúa því að þetta verði búið í lok vikunnar en ég get ekki sagt til með hvaða hætti,“ segir Hildigunnur. „Ég held að þetta gangi ekki mikið lengur miðað við þá stöðu sem við erum í og þá þjónustu sem er farin að skerðast verulega. Ég er með áhyggjur af þeim hóp sem bíður hérna fyrir utan.“

Allri bráðaþjónustu er sinnt á sjúkrahúsinu en valkvæðar aðgerðir og allt sem flokkast ekki undir bráðatilvik  hefur verið frestað. „Við veitum öllum bráðaþjónustu sem leita til okkar og þurfa á brýnni þjónustu að halda. Allir sem er með brýn erindi fá úrlausn sinna mála en hinir sem eru ekki í þeim flokki þurfa að bíða.“

Hildigunnur segir að þeir sem þurfi að bíða líði endilega ekki vel. „Óvissan er mikil hjá þeim og þetta eru oft veikindi sem geta auðveldlega þróast í bráðatilvik. Við getum því miður ekki tryggt öryggi þeirra sem bíða.“

Fyrri fréttir mbl.is:

„Þetta bætir gráu ofan á svart“

Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar á sjúkrahúsinu á Akureyri.
Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar á sjúkrahúsinu á Akureyri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert