Viðrar ágætlega til litahlaups

Von er á ágætu veðri í The Color Run
Von er á ágætu veðri í The Color Run mbl.is

„Undirbúningurinn er á fullu og þetta gengur alveg eins og smurð vél,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson framkvæmdastjóri The Color Run á Íslandi, en hlaupið fer fram í miðborg Reykjavíkur á laugardag.

Ágætlega viðrar til hlaups ef marka má veðurvef mbl.is, en spáð er átta stiga hita og skýjum á lofti um miðjan dag á laugardaginn. Fyrsti ráshópur leggur af stað úr Hljómskálagarðinum klukkan 11. Davíð segir skipuleggjendur þó engar áhyggjur hafa af veðrinu. „Við Íslendingar erum ýmsu vanir og ef það rignir þá verður liturinn bara fallegri fyrir vikið.“

Hlaupið óðum að fyllast

Átta þúsund manns komast að í hlaupinu, sem er óðum að fyllast að sögn Davíðs. Hlaupin er fimm kílómetra leið og hlauparar fá reglulega yfir sig litapúður. Ekki er þó um neinn litabardaga að ræða milli keppenda, heldur sér starfsfólk hlaupsins um litadýrðina.

„Á kílómeters fresti koma hlauparar að litahliði og þar eru 20 starfsmenn frá okkur sem henda yfir þá litapúðri. Síðan klárar fólk sína fimm kílómetra og endar alveg eins og regnboginn við sviðið, sem er í rauninni aðal málið,“ segir Davíð, en hlauparar enda hringinn í stórri „endamarkshátíð“ í Hljómskálagarðinum.

Hlauparar fara fimm kílómetra leið, sem bæði hefst og endar …
Hlauparar fara fimm kílómetra leið, sem bæði hefst og endar í Hljómskálagarðinum. Ljósmynd/The Color Run

Skráningar eru frá öllum heimshornum að sögn Davíðs þó Íslendingar séu í miklum meirihluta. „Þetta eru fyrst og fremst Íslendingar og þeir koma víða af landinu. Við höfum fengið skráningar frá Djúpavogi, Egilsstöðum, Hvammstanga og Hofsósi svo eitthvað sé nefnt, þannig að við erum mjög ánægð með dreifinguna. Síðan er einhver fjöldi ferðamanna sem eru komnir hingað til að njóta landsins og fá þetta einfaldlega í bónus."

Fréttir mbl.is:

Þúsund miðum bætt við í litahlaupið

Opna Color Run verslun í Hörpu

Vefsíða The Color Run á Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert