Sending hvalkjöts til Japans vekur athygli erlendis

Dagblaðið The Guardian segir í dag frá sendingu 1700 tonna af íslensku hvalkjöti til Japans með skipinu Winter Bay. Er rætt við Sigurstein Másson talsmann Alþjóðadýraverndunarsjóðsins um málið.

„Winter Bay hefur nú yfirgefið höfnina í Hafnarfirði með 1700 tonn af hvalkjöti á leið til Ghana,“ er haft eftir Sigursteini. 

„Mínir heimildarmenn segja að skipið verði að stoppa fjórum sinnum á leiðinni. Það gæti reynst þeim erfitt,“ bætir Sigursteinn við. Segir í fréttinni að skipið hafi átt að leggja af stað um miðjan maí, en vegna tæknivandræða hafi brottförin tafist. 

Segir í fréttinni að skip sem sent var með hvalkjöt til Japans í fyrra hafi aðeins haft eina millilendingu og að það hafi verið í höfn á Madagaskar. Ætlunin hafi verið að koma við í Suður-Afríku en vegna mótmæla dýraverndunarsinna hafi það ekki gengið eftir. „Það er ekki til mannúðleg aðferð við að drepa þessi dýr. Það er engin þörf á þessu kjöti og heldur engin efnahagsleg ástæða fyrir Íslendinga til þess að veiða þessi dýr,“ segir Sigursteinn í samtali við dagblaðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert