Skipaður aðstoðarráðherra í Noregi

Reynir Jóhannesson.
Reynir Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Reynir Jóhannesson var í dag skipaður aðstoðarsamgönguráðherra Noregs eftir að hafa gegnt starfi pólitísks ráðgjafa samgönguráðherrans undanfarin tæp tvö ár. Í samtali við mbl.is segir Reynir að í þessu felist viss stöðuhækkun. „Á íslensku er kannski erfitt að útleggja hvers konar staða þetta er. Hér í Noregi er þetta þrískipt, fyrst kemur ráðherra, svo embætti aðstoðarráðherra og loks embætti pólitísks ráðgjafa, en ég hef verið pólitískur ráðgjafi frá árinu 2013.“

Hann segir starfssvið sitt snúast að póst-, fjarskipta- og hafnarmálum. „Ég hef séð um þau mál áður sem ráðgjafi en þessi breyting mun hafa í för með sér fleiri verkefni auk þess sem nú fæ ég heimildir aðstoðarráðherra,“ segir Reynir, sem verður þrítugur síðar á árinu.

Frá og með deginum í dag verður hann einn þriggja aðstoðarráðherra við ráðuneytið. „Það er misjafnt eftir ráðuneytum hversu margir aðstoðarráðherrar eru við störf, allt frá einum upp í fjóra í stærstu ráðuneytunum. Saman stýrum við málaflokkunum fyrir ráðherrann og vinnum því sem teymi þar sem hver og einn hefur þó sinn málaflokk til umsjónar.“

Embætti aðstoðarráðherra felur einnig í sér næstum allar heimildir ráðherrans sjálfs. „Ég get ekki farið til kóngsins á föstudögum og ekki mætt á ríkisstjórnarfundi. Annars hefur maður allar aðrar heimildir. Fyrir stjórnmálanörd eins og mig þá er þetta eins og að fara upp um deild. Þessu fylgir ennþá meiri ábyrgð og það er eitthvað sem maður sækist í, til að geta haft áhrif til góðs á málefnin sem um ræðir.“

Sjá viðtal mbl.is við Reyni: Draumurinn að koma að stefnumótun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert