„Algjörlega óútfærðar hugmyndir“

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði fátt hafa komið í ljós á fundinum í morgun sem ekki hafi við vitað áður. Ólafur fundaði í húsakynnum velferðarráðuneytisins í dag ásamt fulltrúum BHM og hins opinbera, þar sem rætt var um að virkja sáttanefnd í kjaradeilunni.

Ekki er búið að skipa í nefndina, en skipan hennar er háð því að deiluaðilar fallist á að nefnd verði skipuð.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, segir á fundinum hafa verið til viðtals efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu sem greindu frá hugmyndum ríkisstjórnarinnar um skipun sáttanefndar.

„Á þessu stigi eru þetta algjörlega óútfærðar hugmyndir. Við erum á leið til fundar við samninganefnd BHM til að ræða við hana það sem kom fram á þessum fundi,“ segir Þórunn. Hún segir mikilvægt að fram komi að sáttanefnd hafi sama umboð og ríkissáttasemjari. Nefndin geti því ekki þvingað neina til samninga.

„Í fljótu bragði verður ekki séð að slík nefnd geti gert eitthvað umfram það sem ríkissáttasemjari gerir. Það liggur auðvitað fyrir að deilan er í hnút því ríkisvaldið vill ekki færa sig nær okkur. Við þurfum að ræða það í okkar hópi. Ég veit ekki hvers vegna ríkisstjórnin ákvað að taka upp þetta lagaákvæði,“ segir Þórunn.

Heldurðu að þetta sé undanfari lagasetningar á verkfallið? „Ég vil ekki hafa uppi neinar getsakir um það. Við höfum alla tíð verið þeirrar skoðunar og sögðum á síðasta fundi með samninganefnd ríkisins að BHM vill semja, það er réttur okkar, og við viljum að sá réttur sé virtur.“

Ólafur vildi að sama skapi ekki tjá sig um hvort verið væri að koma á sáttanefnd til að geta réttlætt lagasetningu á verkfallið. Ólafur hefur hins vegar sagt að lagasetning á verkfallið væri ekki til að leysa neinn vanda, heldur aðeins fresta honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert