Lækkar skuldir ríkissjóðs um 30%

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir að skuldir ríkisins gætu lækkað …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir að skuldir ríkisins gætu lækkað um 30% og dregið úr vaxtakostnaði um 45 milljarða á ári.

„Þetta mun hafa gríðarlega mikil og jákvæð þjóðhagsleg áhrif, fyrst og fremst til að koma í veg fyrir óheillavænlega þróun sem ella hefði orðið.“ Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, um það hver áhrif af áætlun um losun hafta verði á íslenskt samfélag, en áætlunin var kynnt  á blaðamannafundi í Hörpu í dag.

Sigmundur segir að með þeirri áætlun sem lögð hafi verið fram sé passað upp á að verðmætasköpun sem verði til hér á landi haldist í landi og muni ýta undir frekari verðmætasköpun, „í  stað þess að renna úr landi til að standa straum af skuldum fallinna einkafyrirtækja.“

Lækkun skulda ríkissjóðs 30%

Í kynningunni kom fram að gert sé ráð fyrir því að stöðugleikaskatturinn verði um 850 milljarðar, en ef kröfuhafar velja að fara leið stöðugleikaframlags nemi áhrifin um 900 milljörðum. Stór hluti þessarar upphæðar mun fara til að greiða niður skuldir við Seðlabankann og ríkið, en fram kom að skuldir ríkisins gætu lækkað um tugi prósenta.

Aðspurður um þetta atriði sagði Sigmundur að þetta gæti verið allt að þriðjungslækkun. „Menn hafa miðað við að skuldir ríkissjóðs gætu lækkað um eins og 30% og í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins er bent á að árleg vaxtabyrði ríkisins gæti lækkað jafnvel um 45 milljarða,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Sigmundur sagði að lækkun skulda og bæting lánskjara hefði þau áhrif að ríkið gæti betur sinnt hlutverkum sínum, t.d. til að verja gjaldmiðilinn og stöðugleika hér á landi, til viðbótar við önnur verkefni.

Viðbúinn dómstólaleiðinni og hefur ekki áhyggjur

Mörg mál tengd þrotabúunum hafa undanfarið ár farið í gegnum dómskerfið. Aðspurður hvort að ekki séu áhyggjur af lagalegri stöðu vegna skattlagningarinnar og ágreiningsmálum sem upp gætu komið sagði Sigmundur svo ekki vera. „Við höfum engar efasemdir um að þessar aðgerðir standist lagalega,“ sagði hann, en bætti við að menn hafi látið reyna á ýmislegt lagalegt síðan í hruninu. „Á allt eins von á að menn reyni að láta reyna á eitthvað í þessu,“ sagði Sigmundur.

Benti hann á að kröfuhafar hafi aftur á móti mikla hagsmuni af því að klára málið nú og þeir séu allt eins líklegir til að vilja klára nauðasamninga, en að dómstólaleiðin sé auðvitað möguleiki sem ríkisstjórnin hafi gert ráð fyrir. Vilji slitastjórnin ekki að eignir bankanna verði skattlagðir hafa þau til áramóta að uppfylla stöðugleikaskilyrðin.

Stærstu kröfuhafarnir hallast að stöðugleikaframlagi

Fulltrúum stærstu kröfuhafanna hefur þegar verið kynntar þær aðgerðir sem fara á í. Á fundinum var sagt að það lægi fyrir viljayfirlýsing um að fara leið stöðugleikaframlags í stað skattsins. „Það var búið að upplýsa þá um að til stæði að fara í þessa skattlagningu og hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til að hægt væri að fá nauðasamninga samþykkta,“ sagði Sigmundur. Bætti hann við að komið hefðu meldingar frá nokkrum af stærstu kröfuhöfunum sem væru í átt að stöðugleikaframlagi.

Ekki er nóg að hafa einfaldan meirihluta kröfuhafa í hverju búi til að samþykkja hvor leiðin er farin. Sigmundur segir að enn liggi ekki fyrir hvort allir vilji fara þetta, þó stærstu kröfuhafarnir hafi hallast að því. Nú bíði það slitastjóranna að sannfæra alla kröfuhafa um leiðina í þessu máli.

Almenningur mun finna áhrifin á næstu vikum

Gjaldeyrishöftin hafa nú verið við lýði á Íslandi í 7 ár. Sigmundur segir að fyrsta skrefið í afléttingu muni taka gildi nánast strax og að á næstu dögum verði ráðist í breytingar. „Um leið og menn sjá að þetta er allt komið til framkvæmda, þá skapast aðstæður til þess að almenningur þurfi ekki að finna á nokkurn hátt fyrir höftunum, nema menn séu að sýsla með þeim mun stærri upphæðir,“ sagði Sigmundur. Aðspurður hvort hann eigi þarna við að á næstu vikum muni þetta strax hafa áhrif fyrir almenning og fyrirtæki í landinu játar hann því. „Þau ættu ekki að þurfa að finna fyrir þessu fljótlega.“

Þó munu fjármagnshöftin að einhverju leiti verða í gildi áfram og þannig munu t.d. lífeyrissjóðir og aðrir aðilar sem ætla að sýsla með stórar fjárhæðir þurfa að lúta reglum áfram.  Fullt afnám væri stærra mál og myndi ekki gerast alveg strax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert