Steingrímur: „Ekki boðlegt“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Er það við hæfi, herra forseti, að mönnum líðist að nota ræðutímann sinn og nafngreina aðra þingmenn og rægja þá út í eitt?“ Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, á Alþingi í dag og átti við málflutning Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

„Mér finnst í fyrsta lagi að forsetinn mætti gera athugasemd við slíkan málflutning og í öðru lagi er það ekki boðlegt að þingmenn þurfi að sæta því og sitja undir því þegar þeir geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér,“ sagði Steingrímur og bætti við að hann kippti sér sjálfur ekki upp við „skítadreifarana“ frá Jóni Gunnarssyni.

„Og ég mun hafa tækifæri síðar til að jafna þá reikninga ef svo ber undir, en mér er meira umhugað um það að svonalagað fái að líðast undir störfum þingsins, svona lágkúra og ódrengskapur, að vega mönnum sem ekki geta svarað og hafa ekki ræðurétt í sömu umræðu.

En auðviað er skömmin er háttvirts þingmanns,“ sagði Steingrímur.

Í ræðum sínum hafði Jón gagngrýnt stjórnarandstöðuna harðlega. Hún hefði sýnt tvískinnung með því að berjast fyrir fjárfestingaverkefni á Bakka á Húsavík, þar sem uppbygging kísilvers fer senn að hefjast, en lagt stein í götu uppbyggingar í Helguvík og á Grundartanga.

„Þegar það hentar kjördæmi fyrrverandi formanns Vinstri grænna, Steingríms J. Sigfússonar, sem kom með málið inn í þingið, þá er þetta allt í lagi. En þegar kemur að öðrum kjördæmum og öðrum málum, þá fara menn að flækja sig í einhverjum forsendum og ferlum og þvæla málin út og suður,“ sagði Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert