Ítreka skyldur Póstsins

Nokkur mál hafa komið upp undanfarin misseri þar sem póstur …
Nokkur mál hafa komið upp undanfarin misseri þar sem póstur var ekki borinn út. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Starfsmannastjóri Íslandspósts fundaði með starfsmönnum dreifingarstöðvarinnar þaðan sem pósturinn sem fannst í Gufuneskirkjugarði kom nú í morgun. Nokkur mál hafa komið upp nýlega og á undanförnum árum þar sem bréfberar fyrirtækisins hafa ekki borið póst út og brugðist starfsskyldum sínum.

Þrír pokar með sendingum sem póstlagðar voru í maí og júní fundust í Gufuneskirkjugarði eftir að ábending barst í gær. Póstinum átti að dreifa í póstnúmerum 110, 112, 113 og 270. Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglu.

Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts, segir málið strax hafa verið sett í ferli innanhúss. Starfsmannastjóri fyrirtækisins hafi fundað um málið með starfsmönnum í dreifingarmiðstöðinni þaðan sem sendingarnar komu. Alltaf sé ítrekað fyrir starfsfólki hverjar skyldur fyrirtækisins séu. Í framhaldinu muni starfsmannastjórinn funda með starfsmönnum í öðrum dreifingarmiðstöðvum. Sjálfur segist hann lítið geta tjáð sig um málið að öðru leyti þar sem það sé í höndum lögreglu.

Lágu á pósti sem þeir áttu að bera út

Málið er ekki það fyrsta þar sem í ljós kemur að póstur hefur ekki verið borinn út. Í febrúar sagði mbl.is frá tveimur málum þar sem bréfberar höfðu látið undir höfuð leggjast að bera póst út. Í þeim málum fengu íbúar í hluta Hlíðahverfis í Reykjavík, Grafarvogs og Mosfellsbæjar ekki póstinn sinn. Hvorugur bréfberinn starfar lengur fyrir Íslandspóst. Í mars kom í ljós að bréfberinn í Hlíðahverfi lá á meiri pósti en fyrst var talið.

Í janúar 2011 fannst töluvert magn af pósti í bílskotti sem bréfberi sem hafði verið rekinn um ári áður hafði komið þar fyrir. Ástæða uppsagnar hans var sú að hann hafði ekki borið út allan þann póst sem honum hafði verið falið. Um 300 íbúar í Grafarvogi fengu ekki póstinn sinn á réttum tíma af þeim sökum.

Brynjar Smári segir að mál af þessu tagi komi yfirleitt upp þegar íbúar láti vita. Vel sé fylgst með kvörtunum. Þegar eitthvað óeðlilegt komi upp leitist Íslandspóstur við að finna skýringar á því og rekja hvert málið sé. Skráð sé hvaða bréfberi sé með hvaða póstburðarhverfi á hverjum tíma.

„Þetta er leiðindamál sem á ekki að koma upp. Pósturinn er meðvitaður um skyldur sínar og tekur þær mjög alvarlega. Við biðjumst afsökunar á að þetta skuli gerast,“ segir hann.

Fyrri fréttir mbl.is:

Póstur fannst í Gufuneskirkjugarði

Bréfberi brást skyldum sínum

Annar bréfberi bar ekki út

Bréfberinn var með meiri póst

Rekinn fyrir að liggja á pósti

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert