Kjósi um stjórnarskrá samhliða forsetakosningum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Forsætisráðherra gerir sér væntingar um að hægt verði að greiða atkvæði um breytingar á stjórnarskrá samhliða forsetakosningum á næsta ári. Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi á morgun sagði hann ekki sjálfgefið að tímabundin ákvæði um hvernig stjórnarskrá sé breytt verði varanleg.

Katrín Jakobsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hvort hann hefði væntingar um að þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingartillögur þverpólitískrar stjórnarskrárnefndar geti farið fram samhliða forsetakosningum á næsta ári eins og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur áður nefnt. Spurði hún jafnframt út í framhald starfa nefndarinnar.

Sigmundur Davíð sagði heppilegt að ef nefndin næði það langt í vinnu sinni og næði það vel saman að hægt yrði að greiða atkvæði um tillögur hennar um leið og kosið verður til forseta. Sagðist hann hafa væntingar um að það verði hægt. Jafnframt vænti hann þess að nefndin héldi áfram að vinna að frekari tillögum að breytingum.

Hvað varðaði spurningu Katrínar um hvort ástæða væri til að gera tímabundið ákvæði um að þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi til að samþykkja breytingar á stjórnarskrár í stað þess að tvö þing þurfi þess verði gert varanlegt sagði forsætisráðherra það ekki sjálfgefið. Hann gerði hins vegar ráð fyrir því að nefndin skoðaði hvernig staðið sé að stjórnarskrárbreytingum til frambúðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert