Styðji fjölgun vistvænna bíla

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Rósa Braga

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segist vera þeirrar eindregnu skoðunar að stjórnvöld ættu að halda áfram að stuðla að fjölgun vistvænna bíla með jákvæðum hvötum og telur æskilegt að ríkið leitist við að sýna gott fordæmi með því að auka hlut þeirra.

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurði forsætisráðherra út í stefnu stjórnvalda um vistvæn ökutæki á vegum ríkisins í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Árið 2007 hafi ríkisstjórnin sett fram þau markmið að hlutfall vistvænna ökutækja af bifreiðum ríkisins færi úr 10% árið 2008 upp í 35% árið 2012.

Hún sagði þau markmið hafa engan veginn gengið eftir. Til þess að ná árangri í loftslagsmálum dygði ekki að horfa aðeins í kostnað vistvænna bíla umfram bensínbíla heldur yrðu allir að líta í eigin barm. Merkilegt væri því að sjá ráðherra aka um á Land Rover-jeppum þegar stjórnvöld væru með stefnu um að ganga á undan með góðu fordæmi.

Forsætisráðherra sagði það ánægjulegt hversu mikið rafbílum hefði fjölgað þó að þróunin hafi mátt vera hraðari. Þeir væru hins vegar smátt og smátt að verða hagkvæmari, áreiðanlegri og ódýrari. Þegar kæmi að endurnýjun ráðherrabíla væri æskilegt að menn skoðuðu möguleikann á rafbílum. Hann hygði að þeir væru þegar byrjaðir að því.

Kallaði Brynhildur á móti eftir því að stjórnvöld mörkuðu sér skýrari stefnu og fylgdu henni í ljósi þess að nú horfðu menn upp á það að of seint sé að verða að bregðast við loftslagsbreytingum sem eru að verða á jörðunni vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.

Sigmundur Davíð benti á að Ísland væri eitt umhverfisvænsta land í heimi þegar kæmi að orkuframleiðslu. Það væru fyrst og fremst samgöngutækin sem enn notuðu „gamla“ orku, þ.e. bensín og dísil. Þar af leiðandi væri mjög æskilegt að Íslendingum tækist að draga verulega úr því og bæta þannig stöðu sína enn frekar sem umhverfisvænt land. Öllum hvatningum um það væri vel tekið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert