Stór göt á varðskipinu Þór

Stór göt eru á varðskipinu Þór eftir bugspjót rússneska skólaskipsins.
Stór göt eru á varðskipinu Þór eftir bugspjót rússneska skólaskipsins. mbl.is/Árni Sæberg

Ljóst er að töluverðar skemmdir urðu á varðskipunum Þór og Tý í gær þegar rússneska skólaskipið Kruzenshtern hugðist halda úr Reykjavíkurhöfn, þar sem varðskiptin lágu hlið við hlið. Langt bugspjót rússneska skipsins rakst inn í skrokk Þórs, sem lá nær höfninni áður en stefni þess stímdi á Tý, sem olli árekstri milli varðskipanna tveggja.

Ásgrímur Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, var ekki viðstaddur en segir að ljóst sé af myndbandi sem náðist af atvikinu, að höggið hafi verið þungt. „Hér voru menn úr áhöfninni um borð ásamt viðgerðarmönnum en þeir hlutu nokkurt áfall við áreksturinn,” segir Ásgrímur.

Um skemmdirnar segir Ásgrímur að á bakborða Þórs séu stór göt eftir bugspjótið en einnig sé skrokkurinn mikið genginn til á stjórnborða eftir að varðskipin tvö slógust saman. Þá eru skemmdir inni í skipinu eftir bugspjótið en þar gekk innrétting til við höggið. Ásgrímur segir að beyglan verði líklega skorin úr skrokki Þórs þegar tími gefst og ný plata soðin í staðinn. Bráðabirgðaviðgerðir á götunum á bakborða nægi í bili því Þór siglir út til landgæslustarfa eftir helgina.

Skemmdir á Tý eru meiri, en stefni rússneska skipsins rakst í hlið skipsins. Mastur Týs beyglaðist mikið við höggið en bugspjótið rakst í mastrið eftir að það stakkst inn í búk Þórs. Framanverður bakborði Týs rifnaði upp að hluta við áreksturinn en brú skipsins er einnig nokkuð beygluð eftir spjótið. Týr er ekki haffær eftir óhappið.

Ásgrímur segir að Þór klári eftirlitsverkefni sín eftir helgi og í framhaldinu verði svo gert við skipið að fullu. Týr er nýkominn til landsins eftir að hafa sinnt landamæragæslu í Miðjarðarhafi fyrir landamærastofnun Evrópubandalagsins en áætlað var að hann færi í slipp við heimkomu. Því má gera ráð fyrir að gert verði við skipið áður en það heldur aftur suður á bóginn í september.

Aðspurður um kostnað vegna skemmdanna er Ásgrímur óviss en hann segir að líkur séu á töluverðum útgjöldum.

Hafsöguskipin Jötunn og Leynir fylgdu Kruzenshtern úr höfn. Þess eru þó dæmi að skip verið dregin úr höfn í stað þess að þeim sé snúið við í höfninni og lóðsað út. Ásgrímur segir að nokkurt pláss þurfi til að snúa stórum skipum sem hafa takmarkaðan stjórnbúnað eins og Kruzenshtern, slysin geri þó ekki boð á undan sér, hér og víðar.

Fréttir mbl.is:

Nýtt myndband af árekstri skólaskipsins

Týr óhaffær en gert við Þór

Mynd­band af árekstri skóla­skips­ins

Sigldi á skip Land­helg­is­gæsl­unn­ar

Rúss­neskt segl­skip í Reykja­vík

Skemmdir á varðskipi eftir áreksturinn.
Skemmdir á varðskipi eftir áreksturinn. mbl.is/Árni Sæberg
Skemmdir á varðskipunum voru töluverðar.
Skemmdir á varðskipunum voru töluverðar. mbl.is/Árni Sæberg
Skútan dregin frá varðskipunum.
Skútan dregin frá varðskipunum. Ljósmynd/Steingrímur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert