Bókaskrifin skemmtilegt hliðarstarf

Ragnar Jónasson fær góða dóma fyrir bók sína Snowblind í …
Ragnar Jónasson fær góða dóma fyrir bók sína Snowblind í Bretlandi. mbl.is/Eggert

Bók Ragnars Jónassonar, Snjóblinda (e. Snowblind) er gefin út í Bretlandi í dag. Bókin hefur hlotið góða dóma hjá breskum miðlum. „Þetta hefur allt verið mjög jákvætt. Hún fékk dóm í gær í Sunday Express og sá dómur var mjög jákvæður,“ sagði Ragnar í samtali við mbl.is. 

Í dómi Sunday Express segir meðal annars að það sé ekki skrýtið að Ragnar hafi þýtt 14 Agatha Christie bækur á íslensku og plott bókarinnar sé mjög gott. Bókin hefur áður verið gefin út í Þýskalandi og stefnan er sett á frekari útrás. „Hún kemur einnig út í Póllandi. Náttblinda, sem er bók í sömu seríu, er væntanleg í Bretlandi fyrir jólin. Hún átti að koma út á næsta ári en vegna þess að Snjóblinda hefur fengið góða dóma var útgáfu hennar flýtt.“

Snowblind var fyrst gefin út sem rafbók á Amazon og náði toppsæti þar fyrir mánuði síðan. „Það kom þessu svolítið af stað.“ Ragnar starfar sem lögfræðingur og segir bókaskrifin skemmtilegt hliðarstarf. „Mér finnst mjög gaman að vinna við lögfræði. Það er ánægjulegt að þetta gangi vel og þetta hliðarstarf eða áhugamál gengur vel og maður reynir að sinna þessu í frítímanum.“

Íslenskir aðdáendur Ragnars þurfa ekki að örvænta því von er á nýrri bók frá honum fyrir jólin. „Það er bók sem verður ekki í sömu seríu og fyrri bækur, glæpasaga sem fjallar um allt annars konar söguhetju. Frekar dökk glæpasaga en ég má nú ekki tala of mikið um hana núna!“

Ragnar sagði einhverjar þreifingar hafa átt sér stað varðandi kvikmyndir byggðar á bókum hans. „Það eru menn að spyrjast fyrir um kvikmyndaréttinn á Snjóblindu en maður bara andar rólega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert