Söfnun heldur áfram þó göngu sé lokið

Sigvaldi á göngunni í góðum félagsskap.
Sigvaldi á göngunni í góðum félagsskap. Mynd/James Einar Becker

„Gangan kláraðist um hálf sex á laugardag og tók níu daga,“ sagði Sigvaldi Arnar Lárusson í samtali við mbl.is. Hann tapaði veðmáli við son sinn um val á íþrótta­manni árs­ins og var bú­inn að lofa að ganga frá Kefla­vík til Hofsóss. Hann ákvað að leggja góðu mál­efni lið í leiðinni og safn­ar fé fyr­ir Um­hyggju, fé­lag lang­veikra barna.

„Þetta var miklu erfiðara en ég gerði mér grein fyrir í upphafi og tók mikið meira á en ég gerði mér nokkurn tímann grein fyrir,“ sagði Sigvaldi þegar blaðamaður spurði hvort gangan hefði ekki tekið á.

Erfiðasti dagurinn var þegar gengið var yfir Holtavörðuheiðina. „Þetta er dagur sem á eftir að líða mér seint úr minnum. Við fórum dagleið upp á 60 kílómetra og þetta voru 20 verkjatöflur og einhverjir sex kælipokar og þrjóska og góður stuðningur sem kom mér yfir heiðina. Veðrið var líka gott þennan dag og við náðum að gera snjóengla.“ Að meðaltali gekk Sigvaldi heilt maraþon á dag, 42 kílómetra.

Þrátt fyrir að göngunni sé lokið heldur söfnunin áfram til 1. júlí. „Söfnunin heldur áfram í hálfan mánuð en ég ætla ekki að halda áfram að labba í hálfan mánuð!“ Hægt er að styrkja söfnunina með því að leggja inn á reikning: 0142-15-382600 kt. 090774-4419. Einnig er hægt að hringja og styrkja Umhyggju: 901-5010 fyrir 1000kr, 901-5020 fyrir 2000kr og 901-5030 fyrir 3000kr.

Sigvaldi segir þrátt fyrir þessa erfiðu göngu geti vel verið að hann veðji aftur um hver verði valinn íþróttamaður ársins. „Á laugardag og sunnudag hefði ég sagt nei en það er aldrei að vita hvað maður gerir í dag. Talaðu við mig eftir viku og þá verð ég örugglega tilbúinn að veðja. Það þarf meira en þetta til að þagga niður í manni!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert