Annþór og Börkur bíða enn

Frá Litla-Hrauni.
Frá Litla-Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti

„Það er enn beðið eftir fimmtu og síðustu yfirmatsskýrslunni og höfum við ekkert heyrt af henni í fleiri vikur og mánuði,“ segir Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs Kristjáns Karlssonar, en sá er ásamt Berki Birgissyni sakaður um að hafa orðið samfanga sínum á Litla-Hrauni að bana árið 2012.

Sú yfirmatsskýrsla sem nú er beðið eftir tekur til sálfræðimats Gísla Guðjónssonar og Jóns Friðriks Sigurðssonar en þeir rýndu í atferli og samskipti fanga sem birtust á upptökum úr öryggismyndavélum sem staðsettar eru á gangi fjögur í fangelsinu.

„Það er komið yfirmat á réttarmeinafræðina frá tveimur og nú er bara beðið eftir þriðju yfirmatsskýrslunni sem tekur til atferlis,“ segir Hólmgeir Elías.

Aðspurður segir Hólmgeir Elías það miður að þurfa að bíða svo lengi eftir síðustu yfirmatsskýrslunni. „Þetta er ofboðslega þreytandi. Ég er búinn að vera með Annþór í þessu máli frá upphafi, eða frá árinu 2012. Það er því vissulega leiðinlegt þegar mánuðir og ár líða án þess að nokkuð gerist í málinu.“

Annþór Kristján og Börkur sitja nú á Litla-Hrauni fyrir annað brot. Spurður hvort dráttur á umræddri skýrslu komi í veg fyrir einhver fríðindi sem þeir myndu fá ellegar svarar Hólmgeir Elías: 

„Þetta ólokna mál kemur í veg fyrir ýmis fríðindi. Þeir eru til að mynda byrjaðir að fá dagsleyfi en þau eru hins vegar skert. Og er það að öllum líkindum vegna þess að það er enn ólokið mál í kerfinu.“   

Annþór og Börk­ur eru ákærðir fyr­ir að hafa 17. maí 2012 veist í sam­ein­ingu með of­beldi að fanga á Litla-Hrauni og veitt hon­um högg á kvið. Varð það til þess að rof kom á milta og á bláæð frá milt­anu sem leiddi til dauða hans skömmu síðar af völd­um inn­vort­is blæðinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert