Fyrstu mótmælin á 17. júní?

Frá hátíðarhöldunum á 17. júní í fyrra.
Frá hátíðarhöldunum á 17. júní í fyrra. mbl.is/Eggert

Rúmlega þrjú þúsund hafa boðað komu sína á mótmælafund sem á að hefjast klukkan 11 á Austurvelli, á sama tíma og hátíðardagskrá hefst í tilefni þjóðhátíðardagsins. Lögregla verður með aukin viðbúnað vegna mótmælanna en vonast eftir friðsömum mótmælum og að allt fari vel fram.

Mótmælin eru skipulögð til að mótmæla ríkisstjórninni sem skipuleggjendur segja að sé vanhæf. Yfirskrift mótmælanna er „Ríkisstjórnina burt - Vér mótmælum öll“. 

„Það er dagskrá á Austurvelli á sama tíma og boðað hefur verið til mótmæla. Þetta kemur því ofan í hátíðarhöld sem hafa verið um áraraðir,“ sagði Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

„Forseti Íslands flytur ávarp í  kjölfar kórsöngs rúmlega 11 og hátíðarræða forsætisráðherra er á milli 11.00 og 11.30 þannig að mótmælendur ná dagskránni á Austurvelli.“

Arnar bætti við að löggæsla yrði meiri en venjulega á 17. júní. „Við verðum með fleiri lögreglumenn en alla jafna á þessum degi þannig að það verður aukin löggæsla út af þessum boðuðu mótmælum.“

Ekki verða þó settar upp neinar auka girðingar vegna mótmælanna, lokanir verða hefðbundnar miðað við daginn.

mbl.is/Eggert

Man ekki eftir mótmælum á 17. júní

Arnar kvaðst ekki muna eftir öðrum skipulögðum mótmælum á þjóðhátíðardaginn. „Ég hef nú bara verið hérna í 30 ár en ég man ekki eftir því. Það hafa einhverjir menn komið með skilti en engin skipulögð mótmæli.“ Hann hafi aðeins spurst fyrir um þetta og hafi ekki fundið neinn sem man eftir öðrum skipulögðum mótmælum.

Hann sagði mótmælendur yfirleitt vera friðsamlega. „Mótmælendur hafa yfirleitt verið til sóma. Þetta er þjóðhátíðin hjá okkur og það er algjörlega nýtt fyrir okkur að við séum að fá mótmæli ofan í þetta. Við vonum að þetta fari bara vel fram.“ 

„Hvað með börnin?“

Margir hafa boðað komu sína en ekki eru allir hrifnir af mótmælunum, sérstaklega fer dagsetningin fyrir brjóstið á einhverjum. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina skilur ekki þessi mótmæli og gagnrýnir dagsetningu þeirra harkalega á facebook síðu sinni og segir:

„Hvað er eiginlega að fólki sem ætlar að mótmæla 17. júní á Austurvelli er þessu fólki alveg nákvæmlega sama um börnin sem eru að skemmta sér þennan dag. Vona að þetta fólk geti rifið hausinn út úr rassgatinu à sér bara þennan eina dag.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert