„Gagnrýnin byggð á misskilningi“

Mótmælendur púuðu á Sigmund Davíð og hrópin og trommuslátturinn stóð …
Mótmælendur púuðu á Sigmund Davíð og hrópin og trommuslátturinn stóð einnig yfir við flutning þjóðsöngsins og ávarps fjallkonunnar. mbl.is/Styrmir Kári

Fulltrúar Stjórnarskrárfélagsins mætti með langan trefil sem það strengdi hálfan hringinn umhverfis Austurvöll. Á trefilinn var búið að festa ýmis ákvæði úr stjórnarskrárdrögum stjórnlagaráðs.

Trefill sem tákna á nýja stjórnarskrá

Ása Fanney Gestsdóttir er einn skipuleggenda mótmælanna og tók þátt í gerð trefilsins. „Þetta eru skýr skilaboð um að við viljum að nýja stjórnarskráin sem samþykkt var með 67% atkvæða taki gildi. Þetta er lýðræðisdagur mikill og hefði nýja stjórnarskráin getað tekið gildi þann 17. júní í fyrra á 70 ára lýðveldishátíðinni. Mótmæli á þessum mikilvæga degi hafa því margar skírskotanir,“ segir Ása Fanney í samtali við mbl.is.

Aðspurð hvers vegna trefill hafi verið gerður, segir hún það snúast um sýnileika. „Þetta er sýnileg samstaða. Fólk sem situr heima finnst ekki vera tekið mark á sér. Það getur því lagt sitt af mörkum með því að bæta við trefilinn. Lengd trefilsins er síðan tákn um það hversu langan tíma þetta mál hefur tekið.“

Hún segist hafa fengið senda trefla frá fjölda fólks, einnig þeim sem ekki kunna að prjóna. Aðspurð hvað henni finnist um gagnrýnisraddir sem vilja ekki sjá mótmæli á Austurvelli á þessum degi svarar hún: „Ég myndi segja að það fólk skilji ekki upp á hvað er verið að halda hérna.“

Kvótakerfinu mótmælt

Níels Adolf Ársælsson var einnig á mótmælunum og var hann í föruneyti sem gekk um Austurvöll með líkkistu með árituninni LÍÚ. Hann segist hafa verið að mótmæla kvótakerfinu. „Mér heyrist flestir hérna vilja nýja stjórnarskrá en ég er hér til þess að mótmæla kvótakerfinu í heild sinni.“

Hann segist skilja þá sem gagnrýna mótmælin á þessum degi. „Mér finnst í lagi að fólk gagnrýni það en þessi mótmæli eiga samt fyllilega rétt á sér þótt það sé 17. júní.“

Gagnrýni á mótmælin „byggð á misskilningi“

Guðrún Helga Stefánsdóttir tók þátt í mótmælum Stjórnarskrárfélagsins og hélt í trefilinn sem umlauk Austurvöll. „Ég held að allir sem haldi í trefilinn vilji nýja stjórnarskrá og mig grunar að þeir vilji líka ný stjórnvöld,“ segir Guðrún.

Aðspurð hvaða þýðingu það hafi að mótmæla á þjóðhátíðardaginn vitnar Guðrún í orð Jóns Sigurðssonar. „Þetta er afmælisdagur Jóns Sigurðssonar og hann sagði vér mótmælum allir. Það er bara við hæfi að mótmæla á þessum degi, þetta er dagur sjálfstæðis.“

„Ég hef áhyggjur af velferðarkerfinu og þessu samfélagi sem við höfum byggt upp. Ég hef áhyggjur af heilbrigðiskerfinu til dæmis. Ég vil búa í landi þar sem ég get treyst á það, en ég upplifi það ekki núna.“

Varðandi gagnrýnisraddirnar gegn mótmælunum segir Guðrún: „Mér finnst sú gagnrýni á misskilningi byggð. Það er okkar réttur að mótmæla og það er mjög sterkt á degi sem þessum, því maður spyr sig hvort það sé lýðræðislegt samfélag sem við búum í. Við erum með stjórnvöld sem lofuðu því að gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB en það hefur ekki gerst. Það er ekki lýðræði í mínum huga. Þau starfa ekki í mínu umboði,“ segir Guðrún.

Sjá frétt mbl.is: Ísland upprétt í samfélagi þjóða

Sjá frétt mbl.is: Púað á Sigmund Davíð

Sjá frétt mbl.is: Þjóðhátíðarmótmælin í myndum

Sjá frétt mbl.is: Fyrstu mótmælin á 17. júní?

Sjá frétt mbl.is: „Samfélagsmiðlar hafa breytt mótmælum“

Ása Fanney Gestsdóttir.
Ása Fanney Gestsdóttir. mbl.is/Björn Már
Guðrún Helga Stefánsdóttir með trefilinn.
Guðrún Helga Stefánsdóttir með trefilinn. mbl.is/Björn Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert