Aðgreindu ekki mótmælendur frá öðrum

Mótmælendur létu vel í sér heyra.
Mótmælendur létu vel í sér heyra. mbl.is/Styrmir Kári

„Við skiptum ekki á milli hverjir voru mættir til að mótmæla og hverjir að fylgjast með hátíðarhöldum, heldur athuguðum bara hversu margir voru á Austurvelli,“ sagði Arn­ar Rún­ar Marteins­son, aðal­varðstjóri hjá lög­regl­unni á Höfuðborg­ar­svæðinu, í sam­tali við mbl.is.

Fram hefur komið í fréttum að á milli 2.500 og 3.000 manns hafi sótt mótmæli á Austurvelli í gær sem fóru fram á meðan hátíðardagskrá 17. júní stóð yfir.

„Við teljum að þetta hafi verið á milli 2.500 og 3.000 manns og það sé heildarfjöldinn sem hafi verið á staðnum. Við vorum í svolitlum vandræðum með þetta en gátum skoðað yfirlitsmynd af Austurvelli frá því klukkan var 11:30 og út frá henni náðum við að sirka þetta út, enda er þetta ekki vísindalegt hjá okkur.“

Arnar sagði lögregluna hafa tilfinningu fyrir því að heildarfjöldi fólks á Austurvelli hafi verið á þessu bili.

Þegar myndirnar voru skoðaðar til að áætla fjölda voru allir taldir saman. 

„Það er ekki verið að gera greinarnum á því hverjir eru að mótmæla og hverjir ekki. Þetta er því einfaldlega gróf ágiskun hjá okkur.“

Mótmælin fóru friðsamlega fram og engin átök áttu sér stað. „Þetta snerist aðallega um hávaða en það var enginn meiddur og engu kastað og þannig var þetta bara fínt,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert