Óttaðist ofbeldi heimafyrir

Barnaverndarnefnd hefur verið með mál fólksins til meðferðar frá árinu …
Barnaverndarnefnd hefur verið með mál fólksins til meðferðar frá árinu 2005. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur fallist á kröfu Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um vistun þriggja systkina utan heimilis móður sinnar í sex mánuði frá 21. apríl að telja. Kröfu um slíka vistun fimm barna konunnar hafði verið hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í mánuðinum, en eftir úrskurð dómsins samþykkti konan vistun tveggja elstu barna sinna utan heimilis fram til 21. október 2015.

Fram kemur í dómnum að mál barna konunnar hafi verið til meðferðar hjá barnaverndarnefndinni allt frá árinu 2005. Þannig hafi henni borist fjöldi tilkynninga um ofbeldi á heimili konunnar, sem m.a. hafi beinst að börnunum. Þá er lýst komu barnaverndaryfirvalda að konunni, barnsföður hennar og börnunum þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að börnin hefði orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi og búið við óviðunandi aðstæður á heimilinu. Töldu barnaverndaryfirvöld því að börnunum væri hætta búin að óbreyttu.

Kýlt og sparkað í maga

Í skýrslum sem lagðar voru fyrir Hæstarétt kom fram samantekt viðtals starfsmanns barnaverndarnefndar við eitt barnanna í apríl. Þar kom fram að konan hefði kýlt drenginn í magann og sparkað í magann á honum auk þess sem hún „væri að lemja systur hans og draga hana um á hárinu“. Þannig hafi hann ekki viljað fara heim til móður sinnar vegna þess ofbeldis sem hún beitti.

Fer nú fram lögreglurannsókn vegna gruns um ofbeldi gagnvart börnunum auk þess sem til stendur að konan gangi undir forsjárhæfnismat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert