Íslenskir múslimar fasta lengst

Frá bænahaldi múslima við lok ramadan á síðasta ári.
Frá bænahaldi múslima við lok ramadan á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Múslímar á Íslandi eru þeir sem fasta lengst í heilögum mánuði múslima, ramadan, sem hefst í dag. Á ramadan fasta múslímar frá sólarupprás til sólseturs til þess að dýpka andlega tengingu sína við trúna. Það liggur því beint við að á meðan ramadan stendur yfir fasta múslímar á Íslandi eiginlega allan sólarhringinn, enda er miðnætursólin í hámarki hér á landi um þessar mundir.

Í frétt miðilsins Quartz kemur fram að deilt sé um lengd föstunnar, sérstaklega á þeim stöðum þar sem sólin er hæst á lofti á sumrin. Í fréttinni kemur t.d. fram að múslímar hér á landi fasti í um 21 klukkustund þegar ramadan standi yfir.

Ramadan er þó ekki alltaf í júní heldur færist hátíðin á milli árstíða. Er það vegna þess að múslimar fylgja tunglári en ekki sólári og því er árið þeirra að jafnaði 354. Það veldur því að ramadan færist á milli árstíða á nokkura ára fresti. Sheikh Usama Hasan, yfirmaður hjá Quilliam stofnuninni, sem er fræðimannahópur í Lundúnum, hefur sent frá sér til­skip­un, eða svo­kallaða fatwa, að múslímar í Evrópu geta fastað frá morgni til kvölds í staðinn fyrir frá sólarupprás til sólarlags og fylgt þá tímanum í Mekka, heilagasta stað íslamstrúar.

Það þýðir að múslímar í Bretlandi fasta eins og múslímar í Mekka en þar er dagurinn tólf tíma langur.

„Frá sólarupprás til sólarlags“ reglunni getur einfaldlega fylgt áhætta, sérstaklega fyrir eldri múslima, segir Sheikh Hasan.

En ekki eru allir sammála þessu. 

Imam Khalid Latif, forstjóri miðstöðvar íslam í háskólanum í New York (NYU) segir að ekki sé hægt að fylgja þessari reglu hvar sem er. „Fastan á að vera frá sólarupprás til sólarlags, hér í New York er það frá hálffjögur að nóttu til hálfníu um kvöld,“ sagði hann í samtali við Quartz.

Gerðar eru undantekningar á reglunni fyrir þá sem eru óléttir, gamlir eða veikir. Khalid segir að þeir sem eigi í veikindum eigi að hafa samband við lækni áður en fasta hefst.

„En það að líta svo á að stytta eigi föstu þar sem dagarnir eru langir skapar vandamál,“ sagði hann

Samkvæmt frétt Quartz er fastan lengst hjá múslimum í Reykjavík, eða 21 klukkustund. Í Anchorage í Alaska í Bandaríkjunum þurfa múslímar að fasta í nítján klukkustundir.

Í Dar es Salaam, höfuðborg Tansaníu, er fastað í tólf tíma en Buenos Aires í Argentínu er meðal þeirra borga sem fastan er styst, eða aðeins níu klukkustundir á dag.

Hér má sjá hversu lengi múslimar fasta í ýmsum borgum.
Hér má sjá hversu lengi múslimar fasta í ýmsum borgum. Skjáskot af vef Quartz
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert