Ein gegn Jafnréttissjóði

Frá hátíðarfundi Alþingis í dag.
Frá hátíðarfundi Alþingis í dag. Árni Sæberg

Á hátíðarfundi Alþingis sem fram fór í morgun var, að loknu ávarpi þingforseta, tekið fyrir eitt dagskrármál, þ.e. Jafnréttissjóð Íslands. Var það samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að einu undanskildu. Sigríður Á. Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði gegn tillögunni. 

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, vék orðum að þeim kynbundna launamun sem enn má finna í íslensku samfélagi við lok ávarps síns á Alþingi.

„Það er því fagnaðarefni að í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir til síðari umræðu, um Jafnréttissjóð Íslands sem er framlag Alþingis til kosningaréttar afmælisins, er meðal annars kveðið á um að veita skuli fjármagn til þess að vinna gegn launamuni kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og í atvinnulífinu,“ sagði Einar K. áður en síðari umræða hófst um sjóðinn.

Voru það forystumenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi sem stóðu að tillögu til þingsályktunar um Jafnréttissjóð Íslands. Á sjóðurinn að fá 100 milljónir króna á ári af fjárlögum næstu fimm árin, eða samtals hálfan milljarð króna. Allt að helmingi af ráðstöfunarfé sjóðsins verður varið til verkefna er tengjast stöðu kvenna í þróunarlöndum og stuðla að aukinni þekkingu hér á landi á stöðu þeirra.

„Það er verið að leggja til að verulegum fjármunum sé varið í afar óskilgreind verkefni sem listuð eru upp í þessari tillögu. Og mér finnst það orka tvímælis nú á dögum að gera þetta með þessum hætti,“ segir Sigríður Á. Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurð út í ástæðu þess að hún greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Sigríður gagnrýnir einnig að upphaflegu tillögunni hafi verið breytt.

„Upphaflega var lagt til að helmingur framlagsins færi til þess að efla réttindi kvenna í þróunarlöndum. Eftir athugasemdir frá íslenskum hagsmunaaðilum var þessu breytt í það horf sem tillaga hljóðar nú á um, þ.e. að allt að helmingi fjárhæðar sé veitt til verkefna á alþjóðavísu. Þessari breytingu er ég ekki sammála og hlýt að benda á að ef vilji stendur til þess að styrkja verkefni á þessu sviði hljóti fjármunir að fara þangað sem þeirra er mest þörf.“

Ekki réttur vettvangur?

Þá veltir Sigríður einnig upp þeirri spurningu hvort rétt sé að nýta dag sem þennan og um leið hátíðarfund Alþingis til þess að afgreiða mál á borð við þetta. „Þetta er ekki réttur vettvangur fyrir svona stórkostleg útgjaldamál. Það er í þágu málstaðarins að menn ræði svona mál með mun ítarlegri hætti en þarna er,“ segir hún.

Spurð hvort ekki hafi reynst erfitt að greiða ein atkvæði gegn tillögunni kveður Sigríður nei við. „Nei það var alls ekki erfitt. Ég er nú ekki viss um að það sé svo mikil þverpólitísk samstaða með málinu eins og atkvæðagreiðslan gefur til kynna,“ segir hún og bætir við:

„Ég get alveg fullyrt að ég er ekki ein í afstöðu minni til þessa máls, hvorki á Alþingi né utan þings.“

Sigríður Á. Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Á. Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert