„Góðir hlutir gerast hægt“

Verkfall hefst aðfaranótt þriðjudags náist ekki að semja.
Verkfall hefst aðfaranótt þriðjudags náist ekki að semja. mbl.is/Styrmir Kári

„Það á að reyna að setja einhvern texta utan um það sem við fórum yfir í dag,“ segir Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra- og málmtæknimanna, en fundi lauk hjá VM og Rafiðnaðarsambandinu nú fyrir stuttu. Dagurinn hófst klukkan tíu í morgun á sameiginlegum fundi allra félaga iðnaðarmanna þar sem farið var yfir stöðu mála, en síðan funduðu fyrrnefndu tvö félögin um ýmsar sérkröfur.

Guðmundur segir erfitt að segja til um útlitið í kjaradeilunni, en náist ekki samningar á næstunni munu verkföll á fimmta þúsund iðnaðarmanna hefjast frá og með miðnætti aðfaranótt þriðjudags.

„Ábyrgðin hvílir í raun á samninganefndum þessara félaga að taka afstöðu til þess hvort menn telji sig eiga möguleika á að sækja eitthvað meira í átökum eða hvort þeir vilja hreinlega að þetta fari í dóm félagsmanna, segir Guðmundur.

„Þetta er farið að rúlla af stað, en góðir hlutir gerast hægt. Síðan þarf „lýðræðið“ allt saman og baklandið í þessu bara að fara yfir það sem er þegar búið að nást, en seinni hluta sunnudags verður eflaust farin að komast einhver mynd á þetta. Við höfum allavega mánudaginn til að klára.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert