Aðeins um 15% komast að í lögregluskólanum

mbl.is/Ómar

Umsóknarfrestur fyrir Lögregluskólann rann út á miðnætti í gær. „Inn í skólann verða teknir sextán einstaklingar en yfirleitt eru rúmlega hundrað umsóknir,“ segir Sigríður Hrefna Jónsdóttir, formaður valnefndar Lögregluskólans og starfsmannastjóri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar af eru einhverjar umsóknir frá einstaklingum sem starfa nú þegar hjá lögreglunni við afleysingar. Það liggur því fyrir að mikil samkeppni er um stöðurnar í skólanum.

Hvernig fer valið fram?

„Fyrst eru allir umsækjendur látnir þreyta þrekpróf og íslenskupróf,“ segir Sigríður en þeir sem standast þau próf þurfa að þreyta próf í ensku og því næst er haldið almennt þekkingarpróf. Loks eru þeir sem eftir standa sendir í sálfræðimat og þaðan í viðtal við valnefndina. Ofan á þetta allt saman er svo litið til menntunar og starfsreynslu. Það er því ljóst að inntökuferlið er býsna langt og strangt. Sigríður segir að starfið sé áhugavert og það sýni sig í því að margir sem sækja um en ná ekki inn í fyrsta skiptið sæki um aftur.

Síðasti lögregluskólinn?

Síðasta haust skilaði starfshópur um endurskoðun lögreglulaga af sér skýrslu þar sem lagt var til að lögreglunám yrði fært yfir á háskólastig. Síðan þá hefur mikil undirbúnings- og stefnumótunarvinna átt sér stað. „Við höfum verið að athuga hvað lögreglunám þarf að innihalda og það sem stendur upp úr er yfirgripsmikil þekking á vissum lögum, aðferðafræði og túlkun laga. Hitt er mannlegi þátturinn og fjölbreytileiki hans en nálgun í samskiptum er eðli sínu samkvæmt ólík eftir fólki,“ segir Vilhjálmur Árnason þingmaður en starfshópur sem hann fer fyrir vinnur nú að stefnumótun fyrir lögreglunámið. „Markmiðið er að tengja lögregluna við menntakerfið en lögregluskólinn hefur hingað til verið sér á báti. Þannig að við erum að reyna að nýta okkur menntakerfið til þess að gera námið faglegra. Það er engu að síður mjög mikilvægt að halda tengingunni við lögregluna, námið getur ekki einungis verið fræðilegt þar sem verið er að mennta inn í fagstétt,“ bætir Vilhjálmur við.

Hann segir vonir bundnar við stofnun nýrrar námsbrautar við íslenskan háskóla haustið 2016. Það eru því talsverðar líkur á að þetta sé í síðasta skipti sem hægt verður að sækja um Lögregluskólann eins og við þekkjum hann í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert