Banaslys við Seyðisfjörð

mbl.is

Banaslys varð þegar bifreið valt niður brekku skammt frá Seyðisfirði á tólfta tímanum í gærkvöldi. Tvær konur á þrítugsaldri voru í bifreiðinni. Önnur þeirra lést í slysinu en hin var flutt mikið slösuð á Landspítalann.

Að sögn lögreglunnar á Austurlandi átti slysið sér stað rétt fyrir miðnætti en ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni í hlíð við Vestdalseyrarveg, skammt norðan við bæinn. Lögreglan segir að bifreiðin hafi oltið niður hlíðina rúma 40 metra. Bifreiðin endaði á plani þar sem loðnuverksmiðjan Hafsíld var áður staðsett. Farþeginn lést, en konan kastaðist út úr bifreiðinni.

Lögregla, sjúkralið og björgunarsveitir fóru á vettvang og varð að beita klippum til að ná ökumanninum út úr bifreiðinni. 

Ökumaðurinn var með meðvitund þegar hún var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Henni er nú haldið sofandi í öndunarvél. 

Konurnar eru frá Seyðisfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert