Má ekki fagna of fljótt

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er mjög óróleg yfir stöðunni í heilbrigðiskerfinu og ég er mjög óróleg yfir værukærð stjórnvalda gagnvart því máli. Það er þannig enn þá að um 200 hjúkrunarfræðingar eða heilbrigðisstarfsmenn hafa sagt upp störfum og ekki hefur komið fram að menn séu farnir að draga þær uppsagnir til baka.“

Þetta sagði Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar, við upp­haf síns máls á Alþingi í dag und­ir dag­skrárliðnum störf þings­ins.

Í gærkvöldi undirrituðu hjúkrunarfræðingar nýjan kjarasamning við ríkið og gildir hann frá 1. maí sl. til loka mars 2019. Munu laun þeirra hækka um 18,6% á fjórum árum í gegnum kjarasamninga og aukin framlög í stofnanasamninga.

Benti Katrín þó á að enn eigi félagsmenn eftir að samþykkja kjarasamninginn en formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur þegar lýst því yfir að hann sé hóflega bjartsýnn á að slíkt gerist.

„Ég held að menn ættu því ekki að fagna fyrr en atkvæðagreiðslan er komin í hús. Mér finnst óþægilegt hversu værukærir menn eru hér gagnvart þessari stöðu,“ sagði Katrín.

Sagði hún einnig þörf vera á skýrri áætlun komi upp sú staða að uppsagnir heilbrigðisstarfsmanna taka gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert